Þegar félagsfólk Verslunarmannafélags Vestmannaeyja tók þá ákvörðun að sameinast VR snemma á þessari öld var það eitt af skilyrðum sameiningarinnar að áfram yrði rekin skrifstofa á staðnum. Félagið leggur nú áherslu á að efla enn frekar þjónustuna og auðvelda félagsfólki að leita aðstoðar og upplýsinga þegar þörf krefur. Þess vegna auglýsti VR nýverið nýja stöðu starfskrafts í Eyjum og þegar þetta er ritað stendur yfir erfitt val milli afar öflugra umsækjenda.
Staðbundin þjónusta hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og áratugi, jafnt hjá fyrirtækjum sem hinu opinbera. Landsbyggðarfólk þekkir það vel að þurfa að fara um sífellt lengri veg til að sækja mikilvæga þjónustu og jafnvel hefur verið gert lítið úr kröfum þeirra sem hafa viljað standa vörð um öfluga verslun og þjónustu um allt land.
Mér segir svo hugur að sú þróun að þjónusta sé færð burt frá fólki eigi eftir að ganga til baka á fjölmörgum stöðum. Tryggingafélögin eru til dæmis að átta sig á því að lokun útibúa um allt land var feigðarflan og nú er víða verið að opna starfsstöðvar að nýju. Staðreyndin er sú að sum þjónusta á heima í nærumhverfinu og bæði hið opinbera og fyrirtæki þurfa að átta sig á því.
Af hálfu VR kemur sannarlega ekki til greina að draga úr þjónustu á landsbyggðinni, heldur einmitt fremur að auka hana eftir því sem félagsfólki fjölgar og samsetning þess verður fjölbreyttari. Þótt ekki sé stanslaus traffík inn á skrifstofur VR í Vestmannaeyjum, á Selfossi og víðar, þá er félagsfólki engu að síður mikilvægt að þjónustan sé á staðnum. Enn fremur er það gott fyrir starfsemina þar sem starfsfólk lifir og hrærist í nærsamfélaginu og hefur þá skilning og þekkingu á þeim staðbundnu áskorunum og tækifærum sem þar leynast. Loks er akkur í því fyrir VR að hafa aðgengi að hæfileikaríku starfsfólki á öllu sínu félagssvæði, en ekki eingöngu meðal þeirra sem kjósa að búa á höfuðborgarsvæðinu.
Í grein minni í Eyjafréttum sl. vetur greindi ég frá því að hlyti ég kjör sem formaður VR myndi ég hafa reglubundna viðveru á skrifstofum VR um landið, bjóða félagsfólki til samtals og heimsækja vinnustaði. Í síðustu viku sótti ég Vestmannaeyjar heim. Ég átti góðan fund með Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra um atvinnuþátttöku á svæðinu, heimsótti félaga okkar í Drífanda, leit við í nokkrum verslunum og truflaði skrifstofustarfsfólk Vinnslustöðvarinnar stuttlega. Mér þótti sérlega gaman að verða vitni af þeirri gróskumiklu uppbyggingu sem á sér stað í Eyjum og tala við ungt fólk sem er komið aftur í heimahagana til að nýta bæði ný og gömul starfstækifæri og njóta þess að ala upp börnin sín í barnvænu samfélagi.
Stoppið að þessu sinni reyndist of stutt og ég hlakka til næstu viðkomu. Í millitíðinni hvet ég félagsfólk VR í Eyjum til að fylgjast með þróun þjónustu félagsins á staðnum og hika aldrei við að sækja skrifstofuna heim, hvort sem er með erindi eða erindisleysu.
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR og Pæjumótsmeistari 1994.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst