Ístækni og Laxey hafa gert samning um smíði á ískömmtunarbúnaði fyrir nýja laxavinnslustöð Laxeyjar. Í tilkynningu segir að búnaðurinn, sem er hannaður og smíðaður af Ístækni, skammti rétt magn af ís í kassa til að viðhalda gæðum vörunnar til kaupenda.
„Starfmenn Ístækni hafa unnið við uppsetningu á öllum vinnslubúnaði fyrir Laxey undanfarnar vikur. Þessum viðbótum verður komið upp áður en vinnsla hefst í nóvember,“ segir Jóhann Bæring Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístækni.
„Við hjá Laxey höfum unnið náið með Ístækni að hönnun og uppsetningu búnaðar í nýju vinnsluna. Þetta er síðasti búnaðurinn sem vantaði til að gera vinnsluna fullbúna. Samstarfið við Ístækni hefur gengið mjög vel og vildum við ljúka þessu verkefni með þeim,” segir Kristmann Kristmannsson, verkefnastjóri vinnslu og innkaupa hjá Laxey.
Búnaðurinn verður settur upp um miðjan október og gert er ráð fyrir að vinnsla hefjist í nóvember, tveimur árum eftir að félagið keypti fyrstu hrognin, segir enn fremur í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst