Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera lundasumarið upp. Reyndar sá ég nokkra lunda í gær og höfnin er full af pysju, þannig að það er spurning hvort ekki hefði verið nær að halda lundaballið aðeins nær jólunum?
Annars var lundasumarið að mestu leyti mjög gott, mikið var af lunda í allt sumar. Hins vegar urðu einhverjar breytingar í byrjun ágúst, lundinn átti það til að hverfa í 2-3 daga og mæta svo allur aftur, sennilega tengist þetta eitthvað ætinu og spurning hvort að svona langt hafi verið í æti. Einnig er pysjan mun seinni á ferðinn heldur en það sem við þekkjum sem eldri erum. Það gæti líka þýtt að rétta ætið hafi ekki verið til staðar fyrr í sumar og ekki ólíklegt að ef minna hafi verið af ljósátu eða rauðátu fyrri part sumars, hvort að það geri það að verkum að lundinn seinki varpi? Sjálfur er ég svo alltaf á þeirri skoðun að vegna þess hversu mikið er af þorski hér úti fyrir suðurströndinni, þá að sjálfsögðu hefur það áhrif á fæðuframboðið og lundinn er að sjálfsögðu, eins og aðrir sjófuglar, langt fyrir neðan þorskinn þegar kemur að æti í hafinu.
En pysjurnar eru mjög vel gerðar að mestu leyti og þar sem við megum búast við einni og einni pysju alveg fram í október þá verður heildar bæjarpysju talan einhverstaðar á milli 5-6000, sem að á miðað við 1% regluna þýðir að nýliðun í lundastofninum í ár hér í Vestmannaeyjum er einhverstaðar á milli 5-600þúsund pysjur, sem er svona í lægri kantinum, en hafa verður í huga að þetta er 10unda árið í röð, sem við sjáum svona nýliðun hér í Eyjum, eða hærri.
Í ágætri fyrirspurn sem Sigurjón Þórðarson alþingismaður sendi á umhverfisráðherra kom fram í svörum náttúrufræðinga að áætluð lundaveiði á Íslandi væri á bilinu 20-35 þúsund lundar og færi minnkandi með fækkandi veiðimönnum, sem er mjög athyglisvert miðað við nýliðunina bara hér í Eyjum í ár, enda er hún aðeins ca. 5% í þeim samanburði, þannig að ég ætla að halda mig við þá spá sem ég setti fram í grein fyrir liðlega áratug síðan:
Lundinn mun koma til Eyja í milljóna tali löngu eftir að okkar tími sem lifum í dag, verður liðinn.
Góða skemmtun á lundaballinu, sem vonandi verður þriðja besta lundaball á þessari öld.
Georg Eiður Arnarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst