Ísfisktogararnir í Síldarvinnslusamstæðunni hafa bæði verið að veiðum fyrir austan og vestan landið að undanförnu. Jóhanna Gísladóttir GK landaði á Djúpavogi á sunnudag og er að landa í Grindavík í dag. Vestmannaey VE landaði í Grundarfirði á mánudag og var síðan að landa í Hafnarfirði í gær. Þá landaði Bergey VE í Neskaupstað í fyrradag. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana og fékk fréttir af aflabrögðum.
Einar Ólafur Ágústsson á Jóhönnu Gísladóttur sagði að aflinn í fyrri túrnum hefði verið um 65 tonn, langmest þorskur og dálítið af ýsu með. „Við vorum að veiðum í eina þrjá sólarhringa á Glettingi og á Digranesflaki. Veiðin var heldur dræm. Það var farið út strax að löndun lokinni og þá var veitt við Hvalbakinn og á Gerpisflakinu. Það gekk þokkalega og við komum til Grindavíkur í morgun nánast með fullt skip. Aflinn var mest þorskur en um 30% er ýsa. Það verður farið út aftur síðdegis í dag og þá kemur jafnvel til greina að fara í karfa, en við sjáum til,” sagði Einar Ólafur.
Egill Guðni Guðnason á Vestmannaey sagði að fyrri túr þeirra hefði gengið glimrandi vel. „Í fyrri túrnum vorum við að veiðum í Víkurálnum og fengum þar fullfermi af gullkarfa. Við enduðum að vísu túrinn á Flákanum á Breiðafirði og fengum þar dálítið af þorski og ýsu. Það er langt að fara frá Eyjum í Víkurálinn. Við vorum í 28 tíma á leiðinni. Í Víkurálnum er óþverrabotn og það var dálítið rifið. Við fórum út strax að lokinni löndun í Grundarfirði og þá var farið beint í Víkurálinn á ný þar sem skipið var fyllt af gullkarfa í blíðuveðri. Að því loknu var haldið til löndunar í Hafnarfirði. Að löndun lokinni verður siglt til Eyja og síðan stendur til að veiða fyrir sunnan land,” sagði Egill Guðni.
Jón Valgeirsson á Bergey sagði að aflinn hjá þeim hefði verið blandaður. „Lögð var áhersla á að blanda aflann og þetta var ýsa, þorskur og ufsi hjá okkur. Reyndar var reynt við ýsu allan tímann en hún er býsna erfið. Líkur eru á að ýsan haldi sig innar, jafnvel inni á fjörðum. Við byrjuðum á Breiðamerkurdýpinu þar sem fékkst aðeins af ufsa, síðan var haldið á Lónsbugtina þar sem vart varð við ýsu en lengst vorum við á Hvalbaknum í ýsureitingi og þorski. Undir lokin var haldið á Glettinganesflakið en þar var býsna tregt. Aflinn í túrnum var um 70 tonn þannig að við náðum ekki alveg að fylla,” sagði Jón.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst