Arnar Pétursson og stelpurnar hans í íslenska kvennalandsliðinu höfðu betur gegn Færeyjum, í lokaleik sínum á HM kvenna í handbolta í kvöld. Leiknum lauk með 30:33 sigri Íslands og var þetta fyrsti sigur Íslands í milliriðli á HM.
Algjört jafnræði var með liðunum á upphafs mínútum leiksins en eftir tíu mínútur náðu íslensku stelpurnar tveggja marka forystu, 5:7. Íslensku stelpurnar juku forskotið jafnt og þétt og komust mest sex mörkum yfir, 7:13, eftir rúman stundarfjórðung. Færeyingar minnkuðu muninn og staðan í hálfleik 14:16 Íslandi í vil.
Ísland var með yfirhöndina í síðari hálfleik og náðu fimm marka forystu strax á upphafs mínútunum. Færeysku stelpurnar minnkuðu muninn niður í eitt mark, 27:28, þegar átta mínútur voru til leiksloka en íslensku stelpurnar voru sterkari á lokakafla leiksins og unnu frábæran þriggja marka sigur.
Þrátt fyrir sigurinn endar Ísland í neðsta sæti riðilsins með tvö stig. Færeyjar eru með þrjú stig í sætinu fyrir ofan.
Eyjastelpurnar Díana Dögg Magnúsdóttir, Elísa Elíasdóttir og Sandra Erlingsdóttir spiluðu allar í leiknum. Sandra Erlingsdóttir skoraði fjögur mörk og Elísa Elíasdóttir tvö.
Mörk Íslands: Elín Klara Þorkelsdóttir 8 mörk, Katrín Tinna Jensdóttir 6, Sandra Erlingsdóttir 4, Thea Imani Sturludóttir 4, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3, Dana Björg Guðmundsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 1.