Fólk nær mánaðarlaununum sínum á tæpum fimm dögum á vöktum í makríl – Samið af láglaunafólkinu án samtals eða samráðs við það
„Við erum öflugt samfélag hér í Eyjum, vinnum myrkranna á milli, sköpum gífurleg verðmæti og skatttekjur til samfélagsins og ætlum að gera það áfram. Látið okkur í friði,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags í Vestmannaeyjum, m.a. í samtali við Morgunblaðið á föstudaginn, þegar leitað var viðbragða hans við nýgerðum samningi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um makrílveiðar.
Morgunblaðið bendir á þá augljósu staðreynd að afleiðingarnar verði að mun minni makrílafli kemur til vinnslu hér á landi, bæði vegna þess að veiðiheimildir munu dragast verulega saman frá því sem verið hefur, en einnig vegna hins að líklegt er að hluti þess makrílafla sem veiddur verður í norskri lögsögu muni fara til vinnslu þar í landi.
Þetta er Arnari þyrnir í augum og segir þetta bitna á landverkafólki og betra sé að gera engan samning en slæman. „Af hverju þurftum við að gera samning núna? Það var ekkert sem kallaði eftir því, það átti ekki að gera þennan samning,“ segir Arnar sem gagnrýnir einnig samráðsleysi við gerð samningsins. Landverkafólk sé líka hagsmunaaðili
„Mánaðarlaunin eru 468 þúsund krónur hjá fiskvinnslufólkinu utan makríluppgripanna,“ segir Arnar við Morgunblaðið og nefnir að þegar makríllinn sé unninn á 12 tíma dagvöktum séu heildardagvinnulaunin tæpar 92 þúsund krónur að jafnaði. Þegar unnar eru 12 tíma helgarvaktir séu daglaunin tæp 106 þúsund og í tilviki starfsfólks í fiskimjölsverksmiðju séu launin tæp 78 þúsund á dag.
„Sem sagt, fólk nær mánaðarlaununum sínum á tæpum fimm dögum. Það var verið að semja þetta af láglaunafólkinu án samtals eða samráðs við það,“ segir Arnar. Hann bendir á að á þessu ári hafi verið unnið í makríl í 101 dag, en 2023 hafi dagarnir verið 119 talsins.
„Ég hélt að ríkisstjórnin væri ríkisstjórn hinna vinnandi stétta á Íslandi, en mér sýnist hún vera ríkisstjórn vinnandi stétta í Noregi,“ segir hann og bætir við að ekki sé á áföll Eyjamanna bætandi eftir hækkun veiðigjalda síðasta sumar. „Hér í Eyjum er öflugt samfélag, en við kærum okkur ekki um að ríkisstjórnin sé með aðgerðum sínum að grafa undan samfélaginu hér,“ segir Arnar að lokum.
Nánar í Morgunblaðinu.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst