„Ég man nákvæmlega eftir því hvenær ég hitti Ásgeir Sigurvinsson í fyrsta skipti. Upp á dag! Það var eftir hádegi föstudaginn 21. júní árið 1968. Ég hafði komið siglandi úr Reykjavíkurhöfn með Herjólfi ásamt móður minni tveim dögum fyrr því fjölskyldan var að flytja til Vestmannaeyja.
Faðir minn hafði komið sér fyrir í íbúðinni að Kirkjuvegi 23 og upp á lofti dvöldu eldri systur mínar búnar að koma sér fyrir og spiluðu hljómplötu með tónlist úr kvikmyndinni The Sound of Music frá morgni til kvölds,“ segir Helgi Ólafsson, skákmeistari með meiru í frábæru viðtali við Ásgeir í nýjasta jólablaði Fylkis í Vestmannaeyjum. Fyrirsögnin er: – Ég hef alltaf litið á mig sem Vestmanneying. Í gær, 1. janúar fékk Ásgeir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir afreksárangur í knattspyrnu. Að fullu verðskuldað því hann á að baki glæsilegan feril í Belgíu og Þýskalandi og með íslenska landsliðinu og allt byrjaði þetta á peyjavelli þar sem Safnahúsið stendur í dag.
En Helgi hafði önnur áhugamál og atvik höguðu því svo að þennan dag slóst hann í för með Einari Ottó Högnasyni og Óla Má Sigurðssyni og lá leið þeirra á einn af þessum frægu peyjavöllum í Eyjum þar sem nú stendur Safnahúsið, rétt við gamla spítalann og Alþýðuhúsið.
Gefum Helga orðið:
Þar var nokkur hópur ungra manna að leika knattspyrnu og fengum við að vera með. Nokkru síðar lagði sendiferðabíll við grasblett á mótum Kirkjuvegar og Hvítingavegar. Út sté fullorðinn maður og tók þátt í leiknum.
Ekkert kynslóðabil hér, hugsaði ég. Einar Ottó sagði mér að þetta væri Sigmar Pálmason og bætti við: hann skoraði tvö mörk um daginn þegar ÍBV vann Val, 3:1. Valsmenn voru þá ríkjandi Íslandsmeistarar í knattspyrnu.
Nokkru síðar hljóp ungur piltur niður brekkuna og spurði hvort ekki væri pláss fyrir hann á vellinum. Þetta var Ásgeir Sigurvinsson. Beiðni hans var tekið með nokkrum semingi því að hér gat jafnvægi leiksins raskast. Leyfið var þó veitt, en með því skilyrði að hann færi ekki fram yfir miðju.
Það mátti líka skilja á Einari Ottó að þarna væri á ferðinni alveg sérstaklega efnilegur ungur knattspyrnumaður. Markaskorari í 1. deild fékk sem sagt að leika lausum hala á vellinum en ekki þessi ungi piltur.
Ásgeir tók þá stöðu í markinu og var síðan að senda þessar fínu sendingar þvert yfir völlinn með utanfótar snúningi vinstri fótar og kallaði á eftir boltanum nafn þess sem átti að taka við honum.
Þessi ungi piltur varð síðar mesta íþróttahetja minnar kynslóðar. Að Ásgeir Sigurvinsson skyldi gerast atvinnumaður í knattspyrnu kom engum á óvart. Þó mátti telja þá á fingrum annarrar handar sem höfðu reynt fyrir sér á þeim vettvangi.
Hæfileikar hans, líkamsburðir, hraði og leiktækni voru einfaldlega framúrskarandi. Þegar hann þrumaði boltanum í markið hjá Austur-Þjóðverjum í frægum sigurleik á Laugardalsvelli vorið 1975 þá þrumaði hann líka íslenskri knattspyrnu upp á nýjar hæðir.
Og er hann lyfti silfurskildinum stóra sem táknar sigur í einni bestu atvinnumannadeild knattspyrnunnar, vestur-þýsku Bundesligunni, báru Íslendingar höfuðið hærra og ekki síst gamlir félagar hans úr boltanum.
Hann var slíkur yfirburðamaður í sigurliði Stuttgart að leikmenn völdu hann besta leikmann deildarinnar keppnistímabilið 1983–84.
Þó að nafn Ásgeirs og afrek tengist sterkast þýsku knattspyrnunni má ekki gleyma því hversu glæsilegur ferill hans var með Standard Liège í Belgíu. Það var áréttað þegar knattspyrnustjarna Anderlecht, Paul Guillaume van Himst, sem kosinn var besti knattspyrnumaður Belga á 20. öld, valdi úrvalslið sitt skipað leikmönnum úr belgísku knattspyrnunni yfir 70 ára tímabil, 1953–2023. Þar var Ásgeir í gamalkunnu hlutverki á miðju vallarins.
Ásgeir Sigurvinsson varð áhrifavaldur löngu áður en það hugtak náði flugi í dægumálaumræðunni. Þetta kom meðal annars fram í því að ungir leikmenn fóru skyndilega að reyna fyrir sér með liðum í Vestur-Evrópu og á Norðurlöndunum.
En það var ekki alveg einfalt, enda var fjöldi erlendra leikmanna þá takmarkaður við 2–3 leikmenn, segir Helgi.
Þá má geta þess að Eyjamaðurinn Ásgeir Sigurvinsson var valinn besti knattspyrnumaður íslenskrar knattspyrnusögu af íslensku þjóðinni, sérstakri val nefnd KSÍ og Stöð 2 Sport árið 2008.
Hægt er að nálgast jólablað Fylkis á eyjafrettir.is og lesa frábært viðtal Helga við Ásgeir í heild sinni.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst