Rannsóknaskipið Árni Friðriksson kom í dag í land á Akureyri eftir að hafa verið í um viku við könnun á loðnugöngum austur og norður af landinu. Þetta segir í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar.
Þar segir enn fremur að meginmarkmið leiðangursins hafi verið að kortleggja útbreiðslu loðnustofnsins til undirbúnings við skipulagningu og tímasetningu á heildarmælingu stofnsins. Helstu niðurstöður eru þær að loðnan er tiltölulega skammt á veg komin í hrygningargöngunni austur fyrir land, en fremsti hlutinn var norðaustur af Langanesi og var magnið þar óverulegt (mynd 1). Loðnu varð vart eftir allri landsgrunnbrúninni að Kolbeinseyjarhrygg og vestur fyrir hann þar sem þéttleikinn var einna mestur. Óveður kom í veg fyrir að hægt væri að kanna útbreiðsluna frekar í vestur sem og hafís á Vestfjarðamiðum.
Með hliðsjón af þessum niðurstöðum er stefnt á að fara í heildarmælingu á loðnustofninum upp úr næstu helgi á fimm skipum, rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Þórunni Þórðardóttir, og veiðiskipunum Barða, Heimaey og Polar Ammassak, segir í frétt Hafró.

Mynd 1. Leiðangurslínur Árna Friðrikssonar í loðnukönnun 5.-12. janúar 2026 (bleikar) ásamt bergmálsgildum fyrir loðnu (rauðar línur hornrétt á leiðarlínur). Gráa línan sýnir 400 m dýptarlínu.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst