Viðræður Íslands og Færeyja um endurskoðun á skiptum á aflaheimildum og aðgangi fyrir fiskveiðiárið 2027 hefjast síðar í janúar, samkvæmt nýgerðu samkomulagi. Núverandi fyrirkomulag verður í gildi til 1. ágúst nk. efnislega óbreytt á meðan viðræður ríkjanna fara fram. Þetta segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.
Þetta er niðurstaða árlegra viðræðna Íslands og Færeyja um samstarf á sviði fiskveiða sem er nýlokið, en ríkin hafa átt í nánu samstarfi í málaflokknum í áratugi. Núgildandi samningur er rammasamningur frá árinu 2022 þar sem kveðið er á um árlegt samráð um tilhögun fiskveiðimála.
„Fiskveiðar eru auðvitað gríðarlega mikilvægar fyrir efnahag Íslands og Færeyja og samstarf okkar hefur verið bæði langt og farsælt en að sama skapi krefjandi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. „Nú hefur verið stigið tímabært og mikilvægt skref í þá átt að halda áfram þessu samstarfi á jafnréttisgrundvelli og byggja upp nýtt fyrirkomulag til framtíðar.“
Samkomulagið felur í sér að fiskveiðiheimildir og gagnkvæmur aðgangur að lögsögu ríkjanna fyrir norsk-íslenska síld og kolmunna verði óbreyttur til 1. ágúst nk., með þeim möguleika að hann verði framlengdur út árið. Þannig geta allt að fimmtán íslensk skip áfram stundað kolmunnaveiðar í lögsögu Færeyja samtímis. Þá verður íslenskum skipum heimilt að veiða allt að þrettán hundruð tonn af makríl innan færeysku lögsögunnar sem hluti af þeim veiðum. Heimildir Færeyinga til botnfiskveiða við Ísland verða áfram 5.600 tonn, en heildarafli af þorski verður þó aldrei meiri en 2.400 tonn. Færeyingum er heimilt að veiða loðnu við Ísland sem nemur 5% af ákvörðuðum heildarafla á vertíðinni 2025-2026 en þó að hámarki 30.000 tonn.
Á fundi landanna í Reykjavík var einnig rætt um samstarf landanna á alþjóðavettvangi, aflatölur, áhrif loftslagsbreytinga á fiskveiðar, veiðieftirlit, sérfræðingasamstarf, o.fl..



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst