Um þessar mundir stendur yfir skoðanakönnun meðal íbúa í Vestmannaeyjum þar sem meðal annars er spurt um viðhorf til bæjarstjóra og hugsanlegt kosningaval ef kosið yrði til bæjarstjórnar.
Samkvæmt heimildum Eyjafrétta eru í könnuninni tvær spurningar sem beinast sérstaklega að störfum Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja. Annars vegar er spurt hvort svarendur séu ánægðir eða óánægðir með störf hennar og hins vegar er viðhorfið metið nánar út frá því sem svarendur segjast hafa heyrt, upplifað eða lesið.
Athygli vekur að aðeins er spurt sérstaklega um einn kjörinn fulltrúa í könnuninni og ekki lagðar fyrir sambærilegar spurningar um aðra bæjarfulltrúa eða störf bæjarstjórnar í heild. Bæjarstjórn Vestmannaeyja starfar sem heild og ákvarðanir eru teknar í sameiningu.
Þá er einnig spurt hvaða flokk eða lista svarendur myndu kjósa ef kosið yrði til bæjarstjórnar. Þar eru tilgreindir Eyjalistinn, Fyrir Heimaey og Sjálfstæðisflokkurinn, auk annarra almennra svarmöguleika.
Miðflokkurinn er hins vegar ekki sérstaklega nefndur í könnuninni, þrátt fyrir að flokkurinn hafi lýst yfir að verið sé að kanna möguleika á framboði í Vestmannaeyjum.
Innan við fjórir mánuðir eru nú til sveitarstjórnarkosninga og hefur bæjarstjóri enn ekki gefið út hvort hún muni gefa kost á sér áfram í embætti. Nú er hins vegar hvíslað um það á kaffistofum bæjarins að niðurstöður þessarar könnunar kunni að vega þungt þegar sú ákvörðun verður tekin.