Nítján nemendur útskrifuðust úr Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum þann 19. desember síðastliðinn. Nemendur luku námi af sex mismunandi brautum og var útskriftinni fagnað með hátíðlegri athöfn í skólanum. Á önninni stunduðu yfir 270 nemendur nám í ólíkum námsleiðum og í fjölbreyttum áföngum.
Meðal útskriftarnema var Jason Stefánsson, sem lauk jafnframt grunnnámi í málm- og véltæknigreinum ásamt námi við Íþróttaakademíu FÍV og ÍBV. Jason ræddi við Eyjafréttir um skólagönguna, það sem stóð upp úr og framtíðaráformin.
Skemmtilegast við skólagönguna að hans mati var félagslegi hlutinn, samveran í kompunni og tíminn með vinunum. Hann segir að andrúmsloftið í skólanum hafi verið gott og félagslífið að sama skapi. Námslega gekk honum vel og fannst tíminn í skólanum heilt yfir góður.
,,Það er skrítið að vera búinn með framhaldsskólann og þurfa ekki lengur að mæta á morgnanna, en á sama tíma er það líka fínt.” Jason segir taka við hjá sér að koma sér aftur í leikform í handboltanum, ásamt því að fara að vinna.
,,Ég stefni svo á háskólanám haustið 2027 og pælingin er að fara í eitthvað tengt fjármálum, kannski hagfræði eða viðskiptafræði.”
Þó mikið hafi verið að gera og margir boltar hafi verið á lofti tókst Jasoni nokkuð vel að finna jafnvægi í öllu því sem hann var að gera. „Það var oft mikið að gera og frítíminn takmarkaður, en mér fannst það henta vel að vera á fullu og hafa skýra rútínu. Skólinn blandaðist vel saman við annað sem ég var að sinna og þetta rúllaði einfaldlega áfram og tíminn leið hratt.“
Þegar tími gafst til slökunar notaði Jason þann tíma til þess að hitta vinina eða horfa á handbolta.
En hvaða ráð myndi Jason gefa öðrum sem eru að fara hefja framhaldsskólagöngu sína?
„Þú auðveldar þér lífið ef þú gerir hlutina af viti og nýtir tímann vel. Þetta er skemmtilegur tími og mér fannst mikilvægt að njóta hans á meðan hann stóð yfir,“ segir Jason að lokum.