Þess er nú beðið með talsverðri eftirvæntingu að Hafrannsóknastofnun gefi út ráðgjöf sína varðandi aflaheimildir í loðnu. Búist er við að það verði gefið út á morgun, fimmtudag. Að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra Ísfélagsins er nú verið að græja skipin fyrir loðnuvertíðina sem er í vændum.
„Við erum að taka loðnunæturnar um borð í Sigurð og Heimaey og gera skipin klár til veiða þessa dagana. Við eigum von á að fara af stað þegar vika er liðin af febrúar, en auðvitað blundar í mönnum von um að loðnukvótinn verði aukinn það mikið að ástæða verði til að fara sem fyrst af stað. Ísfélagið áætlar að nota þrjú skip við veiðarnar, þ.e. Heimaey, Sigurð og Álsey, og fókusinn verður eingöngu á heilfrystingu og hrognatöku í lok vertíðar. Vonandi fáum við góðar fréttir frá Hafrómönnum á fimmtudaginn, en þá er reiknað með að útreikningar úr loðnuleiðangrinum liggi fyrir og endanleg úthlutun verði birt,“ segir Eyþór í samtali við Eyjafréttir.
Óskar Pétur Friðriksson og Halldór B. Halldórsson voru á hafnarsvæðinu í morgun og má sjá myndefni þeirra hér að neðan. Þar má einnig sjá nýjan viðlegukant sem unnið hefur verið við undanfarna mánuði, Gjábakkabryggju.