Ferðamálasamtök Vestmannaeyja fagna sumri þrátt fyrir mjög sérstakar aðstæður og frekar óljóst og dapurlegt útlit hvað varðar straum ferðamanna til landsins og Vestmannaeyja. Síðasta ár heimsóttu Ísland um 2,3 milljónir ferðamanna, það liggur fyrir að algjört hrun verði í þessum hópi. Vestmannaeyjar hafa ekki dregið nógu stóran hluta þessa hóps erlendra ferðamanna til sín og til stóð að breyta því hefja sókn og vinna 3 ára markaðsáætlun sem miðaði að því að setja Vestmannaeyjar meðal þriggja eftirsóknarverðustu áfangastaða ferðamanna á Íslandi. Gera ferðaþjónustuna að sterkari stoð í atvinnulífi Eyjamanna. Öll vinna Ferðamálasaamtakana miðar að því. Það er ljóst að breyta þarf aðeins um stefnu þetta sumar.
Í sumar munum Vestmannaeyjar sækja fram á innanlandsmarkaði. Reiknað er með mikilli aukningu á ferðalögum Íslendinga innanlands. Við ætlum okkur skerf af þeirri köku. Bæjaryfirvöld hafa fylgst vel með vinnu Ferðamálasamtakanna og sýnt verkefninu bæði áhuga og skilning og samþykkt myndarlegt framlag til markaðsátaksins. Takk fyrir það!
Ágæti bæjarbúi, um leið og við þökkum þinn skilning á stöðunni sem komið hefur fram t.d. undanfarið í viðskiptum við heimsendingarþjónustu veitingastaða á þessum erfiðu tímum, óskum við eftir aðstoð þinni við markaðsátak! Í nútímanum rekur hver einstaklingur í raun fjölmiðil á samfélagsmiðlum. Við viljum hvetja Vestmannaeyinga til þess að taka þátt í átakinu með okkur með því að deila og vekja athygli á því markaðsefni sem sett verður fram af Ferðamálasamtökunum. Í þessu felist gríðarlegur stuðningur.
Við erum þekkt fyrir dug og samtakamátt. Sýnum hann í sumar og verjum í sameiningu störf þeirra 300 einstaklinga sem starfað hafa við ferðaþjónustu síðastliðin sumur.
Með jákvæðni og bjartsýni í farteskinu og trú á Vestmannaeyjum!
Gleðilegt sumar
Ferðamálasamtök Vestmannaeyja
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst