Liðin vika var róleg hjá lögreglunni á Suðurlandi eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglunnar. Einungis 12 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt og af þeim voru 8 í Rangárvallasýslu, 1 við Vík og 2 í Öræfum og 1 í Árnessýslu. Einungis einn af þeim sem lögregla hafði afskipti af reyndist ölvaður.
11 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, langflest tengd hálku. Í einu þeirra, þar sem flutningabíll lenti út af vegi í Þrengslunum þann 19. nóvember, meiddist ökumaður og var fluttur til aðhlynningar á sjúkrastofnun. Bifreiðin valt og farmur hennar, fiskur, dreifðist nokkuð um slysstaðinn. Nokkurn tíma tók að hreinsa upp og fjarlægja bifreiðina.
Þrjú önnur slys voru tilkynnt til lögreglu í vikunni. Tvö þeirra urðu á hverasvæðinu við Geysi þar sem ferðamenn féllu og slösuðust. Í öðru tilfellinu missti viðkomandi meðvitund en í öllum þremur tilvikum voru viðkomandi fluttir til aðhlynningar á sjúkrastofnun.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst