„Þetta er frábært skref fyrir Ísland og hin Norðurlöndin sem stóðu saman að tilnefningunni. Sameiginlegur menningararfur okkar lifir líka í hinu óáþreifanlega; í siðum, þekkingu, færni og tjáningu sem þróast hefur kynslóð fram af kynslóð. Þessi viðurkenning er mikilvæg hvatning til okkar að standa vörð um og miðla menningararfinum – við berum ábyrgð á honum saman. Ég vil þakka félögum í Vitafélaginu fyrir þeirra frumkvæði og elju í þessu verkefni, og fyrir að halda á lofti mikilvægi íslenskrar strandmenningar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Súðbyrðingur er sérstök norræn gerð báta, sem í tvö þúsund ár hefur skipt sköpum fyrir sjósókn Norðurlandanna. Súðbyrðingar geta verið margvíslegir eftir landssvæðum, en aðferðin við smíði þeirra er sú sama á Norðurlöndunum. Smíði þessara báta byggir á handverkshefð þar sem neðri brún fjalar leggst ofan á efri brún næstu fjalar fyrir neðan. Í upphafi voru borðin saumuð saman áður en trénaglar og síðar járn- og koparnaglar komu til sögunnar. Frá alda öðli hafa súðbyrðingar tengt saman samfélög stranda á milli, fært norrænar þjóðir út í heim og heiminn aftur til Norðurlandanna. Hefðin við smíði og notkun súðbyrðinga er meginþáttur strandmenningar okkar og er sameiginleg arfleifð Norðurlandanna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst