Í gær synti Sigurgeir Svanbergsson frá Vestmannaeyjum upp í Landeyjasand, alls um 12 km langa leið til styrktar Barnaheill. Ágóðinn af sundinu rennur til barna á stríðshrjáðum svæðum.

Til stóð að hann hæfi sundið á Eiðinu kl. 15:15, en brottför frestaðist á hátt í klukkustund,  og kom í Landeyjasand kl. 23:50 og var því tæpar 8 klst í sjónum, sem verður að teljast ansi mikið þrekvirki, en að sögn gekk sundið vel.

Sigurgeir er sjötti einstaklingurinn til að synda þessa leið og fá allir sundmenn nafn sitt ritað á Eyjasundsbikarinn sem er varðveittur í sundlaug Vestmannaeyja.

 En afhverju að fara í þessa þrekraun?
Sigurgeir segir sjálfur frá:

Eins og flestir sem þekkja mig mjög vel vita, þá er ég stöðugt að leita að aðstæðum til að sjá hvert hugurinn fer þegar maður er kominn í “ómögulegar” aðstæður. Ég hef prufað margt krefjandi og sett mig allskonar líkamlega tilburði sem margir myndu kannski flokka undir “tómt rugl”.
Að synda mjög langa vegalengd er eitthvað sem ég lít á sem fullkomið próf. Þú kynnist sjálfum þér á hátt sem ekki er hægt að útskýra með orðum. Þú verður að gera þér fullkomnlega grein fyrir því að þegar þú ert komin/nn í sjóinn þá ertu ekki að fara að stoppa fyrr en á leiðarenda er komið. Ef þú stoppar þá gætirðu verið að tapa dýrmætum tíma.
Í fyrra lærði ég heilmikið um hvað allt þarf að smella til að svona þrekraun gangi vel og ég gerði heilmikið af allskonar mistökum sem kenndu mér klárlega mjög mikið.
Í grunninn snýst þetta um það sem ég hef lengi talað fyrir og það er “hversu langt leyfir hausinn þér að fara?” Hvenær heldur þú að öll orka sé búin og hvenær er hún það í raun og veru? Hversu mikið er hægt að ýta þér niður í þrot, bugun og nánast uppgjöf en ekki gefast upp. Hver er munurinn á hausnum þegar þú stígur út í og þegar sjósundið hefur staðið í marga klukkutíma?
Ekkert hefur verið nær því að buga mig en sjósund í langan tíma og það gerir það mjög áhugavert fyrir mér. Það þýðir að ég mun alltaf ganga aðeins lengra og halda áfram að ögra mér.
Í ár er samt einn stór munur frá því í fyrra og hann er sá að núna kann ég allavega smá að synda!

Texti og mynd af Facebook síðu Sigurgeirs 

Eyjasundsbikarinn er varðveittur í verðlaunaskáp sundlaugar Vestmannaeyjabæjar.