„Það var alltaf hugmynd okkar Daða að byggja upp atvinnu í Vestmannaeyjum. Verandi í fiski höfðum við fylgst með uppgangi í fiskeldi í Noregi og Færeyjum. Fiskeldi á landi var það eina sem kom til greina og eitt leiddi af öðru. Markaður fyrir lax er í dag sá stærsti og hann er þekktasta varan og því eðlilegt að skoða laxeldi. Við erum svo heppnir að á Heimaey er þessa frábæra lóð sem Viðlagafjara er,“ segir Hallgrímur Steinsson sem ásamt Daða Pálssyni er hvatamaður að stofnun Laxeyjar ehf. sem stefnir að stórfelldu laxeldi í Vestmannaeyjum.
„Næsta skref var gerð viðskiptaáætlunar sem leit vel út. Við fundum strax fyrir miklum stuðningi innanbæjar og þá fór þetta að vinda upp á sig. Vestmannaeyingar eru almennt hlynntir atvinnuuppbyggingu og vilja halda áfram að byggja upp öflugt bæjarfélag. Margir mjög spenntir og bæjarstjórn jákvæð frá fyrsta degi,“ segir Hallgrímur og allt er á áætlun.
„Í síðustu viku tókum við síðasta hluta seiðaeldisstöðvarinnar í notkun og settum fisk í lokaþrepið. Þar er hann sjóvaninn og verður fluttur í eldisstöðina í Viðlagafjöru í nóvember í haust. Þar með erum við búnir að standa við allt sem við sögðumst ætla að gera í upphafi. Að ala lax frá eggi upp í fisk í sjó sem nær sláturstærð í fyllingu tímans,“ segir Hallgrímur.
„Já, framkvæmdaáætlanir hafa staðist og það eitt og sér er mikil áskorun. Þetta hefur ekki gengið þrautalaust, heimsfaraldur, tvö stríð í gangi og níu eldgos hafa unnið á móti okkur. Ekki síst þegar kemur að fjárfestum, að þeir fái trú á verkefninu og að við fáum fjármögnun á réttu verði. Allt hefur þetta tekist. Þar skiptir miklu máli fjölskylda Sigurjóns Óskarssonar sem stendur þétt við bakið á okkur og eignarhaldið í Vestmannaeyjum. Þeir finna að krafturinn hér er meiri en víðast annars staðar. Það skiptir líka máli að við erum vel innan skekkjumarka með allar okkar fjárhagslegu áætlanir,“ segir Hallgrímur sem hlýtur að teljast til tíðinda á meðan áætlanir hins opinbera lenda allar í skrúfunni.
Í hlutverki þjálfarans
Hallgrímur þakkar þetta þéttum hópi sem fylgist grannt með öllum kostnaðarliðum, nær árangri í innkaupum og hagstæðum samningum við byrgja og verktaka. „Það er mjög vel haldið utan um framkvæmdina hjá okkur og þessi hópur á mikið hrós skilið. Í allt er þetta góð liðsheild sem hefur náð þessum árangri. Fólk sem við höfum mikla trú á að eigi eftir að skila góðri vöru og haldi vel utan um reksturinn.“
Daði, sem er fyrrum handboltakappi tók undir með Hallgrími og sagðist horfa á þetta með augum þjálfarans. „Það er okkar hlutverk að fylla hverja stöðu með besta fólkinu. Líka fá fólk sem bætir mig sem er ekki fullkominn. Halli veit pínulítið meira en ég, stundum en ekki oft,“ segir Daði og hlær.
„Við teflum fram liði sem hentar þessu verkefni. Höfum valið rétta fólkið sem við þurfum. Hjá Laxey vinna um 40 manns og svo erum við með undirverktaka og ætli þeir séu ekki 100 til 120.“
Hvað verður hópurinn stór þegar starfsemin verður komin í fullan gang? „Það ræðst af því hvernig við ætlum að selja fiskinn okkar. Heill slægður lax er vinsælastur í dag og til að vinna hann þurfum við 30 til 40 manns. Flakaður lax og í neytendapakkningum kallar á miklu fleira fólk, allt að 130 manns,“ sagði Daði.
Myndir Óskar Pétur.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst