„Ástandið núna kallar á ýmsar pælingar um hvernig aðgerðum skuli háttað. Vatnslögnin er löskuð og liggur nærri Klettsnefi. Aðstæðurnar eru afar krefjandi,“ segir Ívar Atlason hjá HS veitum í Vestmannaeyjum í samtali við morgunblaðið.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti í gær yfir hættustigi í Vestmannaeyjum vegna skemmda á vatnslögninni. Raunveruleg hætta er talin á því að hún rofni alveg og þá væri fyrst vandi í Eyjum, því þar eru engar lindir eða vatnsból. Allt neysluvatn er fengið úr uppsprettu við Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum – þaðan sem vatninu er veitt um pípur niður Landeyjar og svo á sjávarbotni út til Eyja.
„Við eigum mikið og raunar allt undir vatnsveitunni. Dagleg vatnsnotkun bæjarbúa er kannski 1.500 tonn. Svo bætist mikið við þegar fiskvinnslan er á fullu. Í þeim álagstoppum fer vatnsnotkunin kannski í 5.000 til 6.000 tonn á hverjum sólarhring,“ segir Ívar.
„Því leggjum við allt kapp á að koma fyrir nýrri lögn sem allra fyrst, þótt vandasamt sé nú þegar hávetur er fram undan. Úti fyrir Klettsnefinu eru þungar öldur í sjónum og kafararnir sem þarna verða í aðalhutverki geta ekki unnið nema veður og sjólag sé skaplegt. En annars er þetta bara verkefni sem við leysum; hugmyndir um að flytja vatn til Eyja í tankskipum ef allt fer á versta veg finnst mér algjör fjarstæða.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst