Fundur SFS í Vestmannaeyjum 8. nóvember sl. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi héldu í hringferð um landið til að heyra, beint og milliliðalaust, hvað væri helst að brenna á fólki í tengslum sjávarútveginn. Yfirskrift hringferðarinnar var Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig? en sjálfbær nýting sjávarauðlindarinnar og hvernig arðinum af henni er skipt varðar okkur öll. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, leiddi fundina og fékk til liðs við sig Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðing Arion banka, og Björn Berg Gunnarsson, fjáramálaráðgjafa, til að varpa sínu ljósi á sjávarútveginn.
Í Vestmannaeyjum var þétt setið í sal Þekkingarseturs Vestmannaeyja en um fimmtíu manns lögðu leið sína á fundinn. „Það er alltaf gott að koma til Eyja og ræða við heimamenn um sjávarútveginn enda sitja menn sjaldan á skoðunum sínum þar á bæ, sem er vel. Mig langaði að nálgast umræðuna út frá markmiði íslenskrar fiskveiðistjórnunar, sem er að hámarka verðmæti fyrir þjóðarhag. Verkefnið er nefnilega að tryggja varanlegan útflutningsvöxt og áframhaldandi góð lífskjör á Íslandi. Við erum að hámarka verðmæti afurðarinnar hér heima til útflutnings á erlenda markaði þar sem samkeppnin er hörð,“ segir Heiðrún Lind en gæta þurfi að því að Ísland endi ekki sem hráefnisútflytjandi eins og vinir okkar í Noregi þar sem nær allur fiskur er fluttur úr landi til vinnslu áður en hann er fluttur á markaði til sölu.
Skattspor sjávarútvegs 85 milljarðar króna
Heiðrún fór m.a. yfir nýjar tölur varðandi útflutningsverðmæti, veiðigjaldið, laun og launatengd gjöld og skattspor sjávarútvegs. „Við vildum setja veiðigjaldið í samhengi stóru myndarinnar en mörgum er tíðrætt um það hvort veiðigjaldið sé of hátt eða of lágt. Veiðigjaldið er lítill hluti af skattspori sjávarútvegs en við kynntum nýjar tölur frá 2022 í hringferðinni sem sýndu að skattspor sjávarútvegs er 85 milljarðar króna. Af því er veiðigjaldið 7,9 milljarðar í heildina. Sjávarútvegur leggur mikið meira til samfélagsins en bara veiðigjaldið eins og þessar tölur sýna svo glögglega. En allt þetta kemur til af því að hægt er að búa til verðmæti í sjávarútvegi á Íslandi,“ segir Heiðrún en eftir miklu sé að slægjast að vel takist til við að auka skattspor sjávarútvegs með því að tryggja áframhaldandi góð skilyrði til rekstrar í sjávarútvegi.
Þá greindi SFS frá því að samtökin réðust í þann alþjóðlega samanburð sjávarútvegs sem matvælaráðherra láðist að gera í sinni vinnu undir heitinu Auðlindin okkar. „Það voru vonbrigði að ráðherra skyldi ekki ráðast í þennan samanburð eins og kveðið var á um í stjórnarsáttmála að skyldi gert en við réðumst því í þetta og kynntum niðurstöðurnar í hringferðinni,“ segir Heiðrún en mjög mikilvægt sé fyrir íslenskan sjávarútveg að staðsetja sig á meðal þjóða og átta sig á hvað væri verið að gera vel og hvað mætti gera betur.
Ísland hálaunaland í fiskveiðum og fiskvinnslu
Í stuttu máli er íslenskur sjávarútvegur mun sveigjanlegri en aðrar þjóðir og sækir hæstu verðin hverju sinni með mismunandi framleiðslu afurða. Telur Heiðrún til mikils að vinna að halda í þennan fjölbreytileika. Á móti er Ísland hálaunaland í fiskveiðum og fiskvinnslu. „Við erum stolt af því og það mun ekki breytast. En á sama tíma felast í því áskoranir – að keppa við lönd þar sem þessir kostnaðarliðir eru minni,“ bætir hún við.
Heiðrún fór að lokum yfir þrjár sviðsmyndir fyrir sjávarútveginn fram veginn og sú ákjósanlegasta felst einfaldlega í því að auka magn afurða með betri og öflugri hafrannsóknum, sækja hærra verð fyrir afurðirnar og nýta þær betur, auka skilvirkni og hagkvæmni rekstrar og halda áfram að sýna ríka samfélagsábyrgð. Þannig aukist myndarlegt framlag sjávarútvegs til samfélagsins, skatttekjur aukist, störfin verði verðmætari og umfang þjónustugreina og nýsköpunar aukist sömuleiðis. „Það þarf bara að ákveða að ráðast í þessa sviðsmynd en ekki þá sem nú virðist vera við lýði hjá stjórnvöldum og endar einfaldlega úti í skurði með minni verðmætasköpun og óhagkvæmari rekstri í sjávarútvegi,“ segir Heiðrún.
Auk Heiðrúnar tóku bæði Konráð S. Guðjónsson og Björn Berg Gunnarsson til máls og fjölluðu um vaxtartækifæri sjávarútvegs, alþjóðlegan samanburð, sjávarútveg í sögulegu samhengi og margt fleira. Erindin í heild má nálgast á upptöku af fundi hringferðar SFS í Reykjavík 10. nóv sl.
Myndir:
Heiðrún Lind sagði að gæta þurfi að því að Ísland endi ekki sem hráefnisútflytjandi eins og Noregur.
Fleiri myndir af fundinum sem var vel sóttur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst