Nú er vert að staldra við og fara yfir hvað nýr meirihluti í fjölskyldu og tómstundaráði hefur afrekað frá því að hafa tekið við fyrir um 8 mánuðum síðan.
Fyrsta stóra málið okkar var að fara í breytingar á aldursviðmiðum frístundastyrksins. Fyrst varð breyting á að foreldrar barna frá 2-16 ára gætu nýtt sér styrkinn sem er að upphæð 25.000 kr á ári. Þegar kom að fjárhagsáætlanagerð var bætt í og aldursviðmiðin hækkuð í 18 ár. Nú geta því foreldrar barna 2-18 ára í Vestmannaeyjum sótt um frístundastyrk. Það er einnig verið að skoða að breyta verkferlum um hvernig sótt er um styrkinn en markmiðið er að einfalda það ferli.
Við höfum bætt við tveimur nýjum stöðum sem við teljum að komi til með að bæta þjónustu við ýmsa hópa í samfélaginu. Önnur staðan er staða íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa en hann mun m.a. hafa umsjón með stjórnun, áætlanagerð, rekstri og samhæfingu á starfsemi æskulýðs-, tómstunda- og íþróttamála hjá Vestmannaeyjabæ. Hann mun aðstoða forstöðumenn félagsmiðstöðvar, íþróttamiðstöðvar og frístundar, auk lengdrar viðveru fyrir fötluð börn og þeirra tómstundastarf. Hann kemur til með að vinna með ungmennaráði að málefnum ungs fólks ásamt því að hafa umsjón með vinnuskóla og sumarstarfi ungs fólks í sveitarfélaginu. Hann mun bera ábyrgð á ýmsum verkefnum eins og forvarnarstefnu of fleira sem fellur undir þennan málaflokk. Það eru því mörg og ærin verkefni sem þessi staða býður upp á. Erna Georgsdóttir hefur verið ráðin í þetta starf.
Hin staðan sem einnig hefur verið samþykkt í ráðinu eru starfsmaður til þess að sinna fjölmenningu í Vestmannaeyjum. Þetta mun vera tilraunaverkefni í ár. Þessi starfsmaður mun vinna í að koma til móts við þennan ört stækkandi hóp í samfélaginu okkar og vera til staðar til þess að aðstoða þessa íbúa við að aðlagast samfélaginu okkar. Meirihlutinn fagnar því að auka eigi við þjónustu fólks með erlent ríkisfang þar sem fjöldi þeirra hefur aukist töluvert og er orðin 9% af íbúafjölda í Vestmannaeyjum. Enda stefna að styrkja þjónustu við þennan hóp. Starfsmaðurinn sem var ráðinn í þetta starf er Klaudia Beata Wróbel.
Við erum líka afar stolt af því að ætla að taka þátt í verkefninu Janus heilsuefling, Heilsuefling eldri borgara á Íslandi. Verkefnið er virkilega spennandi þar sem íbúar Vestmannaeyja 65 ára og eldri fá tækifæri til þess að efla sína heilsu. Verkefnið hefur mikið forvarnargildi þar sem betri heilsa íbúa getur stuðlað að lengri sjálfstæðri búsetu.
Ráðið hefur eflt ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk til muna og geta þau nú farið leiðar sinnar á kvöldin, helgar og á rauðum dögum með niðurgreiðslu á leigubílakostnaði. Fatlað fólk sem ekki getur nýtt sér leigubílaþjónustu vegna fötlunar sinnar geta óskað eftir sérútbúnum bíl með bílstjóra til að komast leiðar sinnar á þessum tíma ef þörfin er metin sem svo. Auk þess er í vissum tilfellum hægt að fá lánaðan sérútbúin bíl hjá sveitarfélaginu gegn vægu gjaldi. Með þessu gefst þessum einstaklingum meira frelsi til þess að ferðast utan opnunartíma.
Einnig var ákveðið að hafa opnunartíma sundlaugarinnar lengri á sumrin en verið hefur áður og verður gaman að sjá hvort það verði nýtt betur. Þar sem sundlaugin er til umræðu má einnig nefna að keypt hefur verið ný lyfta fyrir hreyfihamlaða sem gefur einnig kost á að hreyfihamlaðir geta komist í pottana á útisvæðinu.
Það hefur því verið í mörgu að snúast hjá ráðinu og gaman að geta tekið þátt í því að bæta þjónustu í Vestmannaeyjum.
Helga Jóhanna Harðardóttir
Hrefna Jónsdóttir
Haraldur Bergvinsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst