Elliði Vignisson, bæjarstjóri sendi í síðustu viku bréf á Eimskip og Vegagerðina þar sem hann telur upp sjö atriði sem betur mættu fara. „Herjólfur og ferðir Herjólfs eru og verða eitt stærsta hagsmunamál samfélagsins okkar hér í Vestmannaeyjum. Vandamálin með Landeyjahöfn í vetur hafa verið mikil vonbrigði og haft áhrif á mannlífið hér og þar með alla umræðu í bænum. Það æðruleysi sem Eyjamenn hafa sýnt í málefnum Landeyjahafnar leggur þá kröfu á þá sem að samgöngumálum koma að kappkostað verði að óhagræðið af óhjákvæmilegum þáttum magnist ekki upp vegna viðráðanlegra þátta,“ segir í bréfinu sem Eyjafréttir óskuðu eftir að fá að birta og má lesa það í heild sinni hér að neðan.