Í gær kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð um mál sem Tryggvi Már Sæmundsson, ritstjóri Eyjafrétta kærði til nefndarinnar og snýr að ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja beiðni hans um aðgang að samningi sveitarfélagsins við Ólaf Elíasson um gerð minnisvarða.
Sjá einnig: Bærinn birtir ekki allan samninginn
Strikað hafði verið yfir hluta af textanum samkvæmt beiðni viðsemjenda Vestmannaeyjabæjar, Studio Ólafs Elíassonar þar sem viðkomandi upplýsingar vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni.
Í kæru var gerð krafa um að Vestmannaeyjabær afhendi þau gögn sem upp á vanti í samningnum, þ.e. viðauka A og B auk þeirra upplýsinga sem strikað var yfir. Þegar kemur að fjárútlátum úr sameiginlegum sjóðum hvíli rík upplýsingaskylda á sveitarfélaginu.
Í niðurlagi í niðurstöðukafla úrskurðarins segir: Að mati nefndarinnar varða upplýsingar um kaupverð í samningnum og i viðauka B um tímalínu verksins bæði fjárhags- og viðskiptahagsmuni Studios Ólafs Elíassonar. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að verði upplýsingarnar gerðar opinberar muni það valda Studioinu tjóni. Þá horfir nefndin til þess að upplýsingar um kaupverð varða ráðstöfun opinberra fjármuna en almenningur hefur jafnan mikla hagsmuni af að vera upplýstur um hvernig fé úr sameiginlegum sjóðum er varið. Þá hefur almenningur einnig hagsmuni af að geta fylgst með hvort tímaáætlanir um verkið standist. Það er því niðurstaða nefndarinnar að hagsmunir Studiosins af að upplýsingar um kaupverð og tímalínu fari leynt þurfi að víkja fyrir ríkari hagsmunum almennings af að fá upplýsingarnar afhentar.
Upplýsingarnar varði þannig ekki mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stúdíósins sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þar sem önnur takmörkunarákvæði upplýsingalaga eiga ekki við um upplýsingarnar verður Vestmannaeyjabæ gert að veita kæranda aðgang að samningnum i heild ásamt viðaukum A og B.
Í úrskurðarorðum segir: Vestmannaeyjabær skal veita kæranda, Tryggva Má Sæmundssyni, aðgang að samningi sveitarfélagsins við Studio Reykjavik ehf. i heild sinni ásamt viðaukum A og B við samninginn.
Þessu tengt: Heildarkostnaður áætlaður 200 – 220 milljónir
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst