Vestmannaeyjatogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu báðir í Neskaupstað í gærmorgun. Afli hvors skips var um 40 tonn.
Skipstjórarnir sögðu – í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar – að komið hefði verið til löndunar af tveimur ástæðum; annars vegar hefði verið komin bölvuð bræla og hins vegar hefði fisk vantað til vinnslu hjá Vísi í Grindavík. Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að víða hefði verið komið við í veiðiferðinni.
„Við byrjuðum í Sláturhúsinu en síðan var farið í Lónsbugt, Berufjarðarál, Hvalbaksgrunn, Glettinganesflak, á Héraðsflóann og endað á Tangaflakinu. Sannleikurinn er sá að alls staðar var fremur tregt að þessu sinni en maður hefur nú samt oft séð það verra. Undir lokin versnaði veðrið og það kom sannkölluð skítabræla,” sagði Egill Guðni.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey hafði svipaða sögu að segja. „Við fórum tiltölulega víða. Byrjuðum á Ingólfshöfðanum og vorum talsvert í Hvalbakshallinu. Þurftum að skreppa í land og að því loknu var haldið norður á Gletting en þá tók veðrið að versna verulega.”
Skipin héldu bæði út strax að löndun lokinni og hófu veiðar á ný á Glettinganesflakinu. Gert er ráð fyrir að þau landi á ný í Neskaupstað á morgun.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst