Skipstjóri fraktskipsins Longdawn, Eduard Dektyarev, hefur verið dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi. Stýrimaðurinn Alexander Vasilyev hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Skipið átti í árekstri við strandveiðibátinn Höddu 52 sl. maí.
Þetta segir í dómi frá Héraðsdómi Reykjaness sem var kveðinn upp fyrir helgi. Ákærðu komu fyrir dóm við þingfestingu máls og játuðu sök.
Áreksturinn varð til þess að bátnum hvolfdi og maraði hálfur á kafi. Skipstjóri annars strandveiðibáts kom skipstjóra Höddu, sem svamlaði um í köldum sjónum, til bjargar. Eftir áreksturinn lagðist flutningaskipið að bryggju í Vestmannaeyjum.
Undir áhrifum við áreksturinn
Alexander hafði upplýst Eduard um áreksturinn og talið sig hafa séð bátinn sökkva. Þrátt fyrir það gaf skipstjórinn stýrimanninum fyrirmæli um að halda för flutningaskipsins áfram.
Með því að skilja skipstjóra Höddu eftir í sjónum stofnuðu þeir ákærðu „lífi hans og heilsu í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt“, eins og fram kemur í niðurstöðu dómsins.
Eduard hafði verið undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna við stjórn skipsins og þannig óhæfur til að sinna skipstjórn með fullnægjandi hætti. Honum hefur verið sviptur skipstjórnarréttindum og rétti til að gegna stýrimannstöðu í þrjá mánuði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst