Umsókn um lóð og flutning á húsi lá fyrir umhverfis og skipulagsráði í vikunni. Sigurjón Ingvarsson fyrir hönd Vigtin – Fasteignafélag sækir um lóð á Kirkjuvegi 29 þar sem til stendur að flytja húsið Dal við Kirkjuveg 35, Vestmannaeyjum, á auða lóð, nr. 29 við sömu götu. Húsið við Kirkjuveg 35 var reist árið 1906 og nýtur friðunar vegna aldurs skv. 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Í því felst að óheimilt er að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað, nema með leyfi Minjastofnunar Íslands sbr. 2. mgr. 29. gr.
Minjastofnun Íslands leggur almennt erslu á að friðuð hús séu varðveitt á sínum upprunastað. Sé ekki mögulegt að tryggja varðveislu friðaðs húss nema með því að flytja það á aðra lóð er æskilegt að húsinu sé fundinn staður í næsta nágrenni. Minjastofnun leggur áherslu á að húsið Dalur verði varðveitt og það gert upp á viðeigandi hátt. Minjastofnun telur koma til greina að flytja húsið á lóðina við Kirkjuveg 29 ef það má verða til að tryggja varðveislu þess. Komi til flutnings þarf Minjastofnun að fá aðaluppdrætti að breytingunni til umsagnar. Segir umsögn minjastofnunar um málið.
Ráðið samþykkir að úthluta lóðinni fyrir hús sem í dag stendur við Kirkjuveg 35.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst