ÍBV og Víkingur skildu jöfn í Eyjum í dag þegar liðin mættust á Hásteinsvelli í 14. umferð Bestu deildar karla. Fyrri hálfleikurinn var mjög bragðdaufur og lítið um færi á báða bóga. Sverrir Páll Hjaltested var nálægt því að koma Eyjamönnum yfir í fyrri hálfleik þegar hann náði að snúa varnarmann Víkings af sér og koma sér í fínt skotfæri en skotið fór í þverslánna. Staðan því 0-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var mjög svipaður og sá fyrri. Eyjamenn vörðust virkilega vel og áttu Víkingar í erfiðleikum með að finna opnanir. Víkingur sótti þó vel á Eyjamenn undir lok leiksins. Atli Þór Jónasson var nálægt því að skalla boltann í netið og svo björguðu Eyjamenn á línu. Inn vildi boltinn ekki og þar með endaði leikurinn markalaus.
Eftir leikinn fer ÍBV fer upp í 9. sæti með 15 stig en FH og KA liðin í 10. og 11. sæti eiga bæði eftir að spila. Víkingur er áfram á toppnum með 30 stig og eru með þriggja stiga forystu á Val og Breiðablik.
Næsti leikur Eyjamanna er gegn Stjörnunni mánudaginn 14. júlí kl. 18:30 á Hásteinsvelli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst