Sigurjón Þórðarson, líffræðingur og formaður atvinnuveganefndar Alþingis sendi á dögunum skriflega fyrirspurn til Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um lundaveiði. Svör hafa nú borist frá ráðherra.
Sigurjón segir að það sem er áhugavert við svarið sé m.a. að veiði hefur dregist saman. „Ekki er vitað um hve mikil sala er á lunda í veitingahúsum, en engu að síður þá hefur verið í umræðunni að banna sölu á lunda.”
Hann segir að fyrirspurn um stærð lundastofnsins sé heldur ekki svarað með fullnægjandi hætti – aðeins lagt mat á fjölda varppara, sem leiðir af sér að spurningu um veiðiálag á heildarstofnstærð er ekki heldur svarað. „Næsta skref er að kynna sér nánar skýrsluna og gögnin sem liggja að baki mati Náttúrustofu Suðurlands,” segir Sigurjón.
Hér að neðan má lesa svörin við spurningum Sigurjóns.
Hversu stór hluti af lundaveiði er seldur til veitingahúsa? Með hvaða hætti er magnið metið og hefur sú sala breyst hlutfallslega undanfarin ár og áratugi?
Óskað var eftir upplýsingum frá Náttúruverndarstofnun. Stofnunin hafði ekki upplýsingar um hlutfallið eða vitneskju um að þær upplýsingar væru til. Sala á lunda er ekki tilkynnt til stofnunarinnar. Stofnunin skoðaði matseðla ýmissa veitingahúsa á landinu síðasta sumar og innihéldu rúmlega tíu þeirra lunda. Stofnunin hafði jafnframt samband við Samtök ferðaþjónustunnar í fyrra til að forvitnast um hvort þau hefðu upplýsingar um fleiri staði en ekki fékkst svar við fyrirspurninni.
2. Hversu stór er lundastofninn og hvernig hefur stofnstærðin sveiflast undanfarin 30 ár?
Náttúrustofa Suðurlands vaktar lundastofninn og leggur vöktunarniðurstöður fram til grundvallar mati á stofnþróun hans. Slíkt mat var gert í maí 2024 í samvinnu við erlenda sérfræðinga, Dr. Carl Walters og Dr. Fred A. Johnson, m.a. með svonefndri stofnfækkunargreiningu (e. stock reduction analysis) sem stofan telur vera besta mat á stofnþróun lunda sem gert hefur verið hingað til. Fleiri aðferðum var einnig beitt samtímis, m.a. af Dr. Johnson, og voru niðurstöður þeirra allar samhljóma. Ef litið er til síðustu 30 ára sérstaklega þá var varpstofninn metinn 5.970.000 fuglar árið 1992, en 3.258.000 fuglar árið 2022. Nýliðun dróst saman frá 1995, en hefur aukist síðasta áratuginn.
3. Hvert er veiðiálagið í prósentum af heildarstofnstærð?
Uppgefin veiði á lunda samkvæmt veiðiskýrslum hefur dregist saman og er nú um 20–35 þúsund fuglar á hverju ári. Sömuleiðis hefur veiðimönnum fækkað. Sé miðað við heildarstofnstærð lunda er veiðiálag ekki mikið en eðlilegra er að meta veiðiálagið á þann hluta stofnsins sem helst veiðist í háf, þ.e. 2–4 ára ungfugl. Samkvæmt greiningu Dr. Walters er veiðiálagið á 2–4 ára ungfugli undir 10% (hann nefnir þó ekki hve langt undir 10%). Niðurstöður Dr. Walters og Dr. Johnson benda til þess að ólíklegt sé að stofninn þoli meira en 4–5% veiðiálag á 2–4 ára ungfugli við bestu aðstæður. Dr. Walters nefnir að þó veiðiálagið sé lágt þurfi að setja það í samhengi við lífshætti lundans, sem er langlífur, með hæga viðkomu og með afar hægan stofnvöxt jafnvel við bestu skilyrði.
4. Hefur verið lagt mat á menningarlegt gildi veiðanna, t.d. í eyjasamfélögunum í Grímsey og Vestmannaeyjum?
Lagt var mat á gildi lundans í vinnustofu í grunnvinnu fyrir stjórnunar- og verndaráætlun hans árið 2023. Þessi greining er þó alls ekki lokagreining á gildum þar sem endanlegur vinnuhópur fyrir áætlunina hafði ekki verið skilgreindur og vantaði t.d. í hann veiðimenn úr þessum samfélögum og úteyjaveiðifélögum. Þetta voru einfaldlega fyrstu skref vinnunnar og eitt af stefnumálunum var t.d. að greina alla hagsmunaaðila. Formlegur vinnuhópur verður skipaður síðar í ferli stjórnunar- og verndaráætlunar. Þá verður haldin vinnustofa og farið í vinnu með gildi og stefnumótun stýringa á lundaveiði. Sá hópur mun innihalda lundaveiðimenn, helst einn frá Vestmannaeyjum og annan frá Norðurlandi. Á fundum Náttúruverndarstofnunar með lundaveiðimönnum í Vestmannaeyjum og á Norðurlandi síðastliðinn desember var þetta rætt og þar voru veiðimenn reiðubúnir til þess að koma inn í vinnuna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst