Mikil rigning setti svip sinn á dagskrá Þjóðhátíðar í gærkvöldi og nótt. Færra fólk var í brekkunni en á föstudagskvöldinu, en flestir voru þó vel búnir.
Lögregla hafði í nógu að snúast og voru flest verkefni tengd ölvun. Fangageymslur voru fullar á tímabili, en gestum lögreglu fer fækkandi með morgninum, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum.
14 fíkniefnamál komu upp og í einu máli var aðili grunaður um sölu, en í fórum hans fundust yfir 40 grömm af kókaíni, sem voru haldlögð.
Eitt kynferðismál hefur verið tilkynnt lögreglu og rannsókn þess komin vel á veg. Tvær minniháttar líkamsárásir voru tilkynntar og einn aðili stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna. Undir morgun hefur stytt upp og nú er þurrt í Eyjum en skýjað.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst