Leikmenn ÍBV fóru hreinlega á kostum í dag þegar þeir tóku á móti Víkingum. Eyjamenn réðu lögum og lofum á vellinum í fyrri hálfleik og í raun fengu Víkingar aðeins eitt alvöru færi í öllum leiknum. Eyjamenn hreinlega óðu hins vegar í færum í fyrri hálfleiknum og ef það er eitthvað sem mætti setja út á leik liðsins, þá væri það nýting færa. En þeir Ian Jeffs og Tryggvi Guðmundsson komu ÍBV í 2:0 í fyrri hálfleik og Eyjamenn voru svo ekki í vandræðum með að halda fengnum hlut í þeim síðari. Lokatölur urðu því 2:0.