„Ég vann við uppbyggingu fiskvinnsluhús Godthaab í Nöf á sínum tíma, hef haldið mig á sama stað allar götur síðan þá og gengið í flest störf. Byrjaði á frystitækjunum, sá um launaútreikning um tíma, sinnti innkaupum á hráefni og umbúðum og kom víðar við í rekstrinum. Starfsemina þekkti ég því mjög vel þegar ég tók við sem framkvæmdastjóri Leo Seafood.“
Bjarni Rúnar Einarsson er gegnheill og hreinræktaður Eyjamaður og á baki tveggja áratuga starfsferil í sama fyrirtækinu sem reyndar skipti um nafn á leiðinni.
Fjórir af fimm stofnendum Godthaab í Nöf voru starfsmenn Ísfélags Vestmannaeyja þegar hús félagsins brann í desemberbyrjun árið 2000. Ísfélagsbruninn var gríðarlegt áfall fyrir allt samfélagið í Eyjum og mikið uppbyggingarstarf blasti við. Daði Pálsson, Jón Ólafur Svansson, Björn Þorgrímsson og Einar Bjarnason (faðir Bjarna Rúnars) – allt fyrrverandi starfsmenn Ísfélagsins – ákváðu að róa á eigin mið og stofna fiskvinnslufyrirtæki. Fimmti stofnandinn í hópnum var Sigurjón Óskarsson útgerðarmaður.
Nafn nýja félagsins tengdist stórbrunanum óbeint. Í kaffistofu Ísfélagsins hékk nefnilega tréskjöldur sem á stóð Godthaab og mönnum til mikillar furðu stóð hann alheill af sér eldhafið sem kengbeygði stálbita og eyddi öðru eða eyðilagði. Þetta þótti til marks um að gæfa fylgdi heitinu Godthaab og það sannaðist.
Á árinu 2017 var breyting í eigendahópnum. Systkinin Gylfi, Viðar og Þóra Hrönn keyptu hluti Jóns Ólafs, Björns og Einars en Sigurjón og Daði héldu sínum eignarhlutum. Um leið og þetta gerðist var nafni fyrirtækisins breytt í Leo Seafood. Nýja heitið á fyrirtækinu var tengt fjölskyldusögu Sigurjóns Óskarssonar og systkina hans. Foreldrar þeirra, Óskar Matthíasson og Þóra Sigurjónsdóttir, áttu og gerðu út Leó VE-400.
Fiskur á markað beggja vegna Atlantshafsins
Bjarni Rúnar segir að starfsemi Leo Seafood sé best lýst sem hefðbundinni fiskvinnslu þar sem hráefnið er fryst eða sent ferskt á markað erlendis.
„Við erum um áttatíu manna vinnustaður og margir í hópnum eiga langan starfsferil að baki. Í slíkri reynslu eru fólgin mikil verðmæti.
Starfsemin er hefðbundin frysting, aðallega þorskur, ýsa og ufsi, en við flytjum líka út ferskan fisk sjóleiðis eða í flugi.
Þórunn Sveinsdóttir VE veiðir um það bil helming þess sem fer í gegnum húsið hjá okkur, annan fisk kaupum við af Ísfélaginu, Vinnslustöðinni eða á markaði. Bergur-Huginn sá okkur fyrir um þriðjungi hráefnisins áður en Síldarvinnslan keypti félagið og síðar Vísi í Grindavík.
Við seljum mikið af þorski og ýsu til Bandaríkjanna, í gömlu góðu fimm punda öskjunum. Ufsinn fer að miklu leyti til Evrópuríkja, aðallega til Spánar, Frakklands, Þýskalands, Póllands og Tyrklands.
Ferskir hnakkar fara aðallega til Frakklands.“
Fagnaðarefni að Þórunn og kvótinn séu áfram í Eyjum
– Hefur dagleg tilvera breyst hjá þér eftir að Vinnslustöðin eignaðist Leo Seafood?
„Nei, í sjálfu sér lítið. Aðgengi okkar að hráefni er reyndar þægilegra en áður var og samskiptin við Vinnslustöðvarfólk hafa byrjað vel og þægilega að því leyti.
Starfsemi okkar og Vinnslustöðvarinnar leggst vel saman og hentar báðum vel.“
– Kom flatt upp á þig að Vinnslustöðin skyldi eignast Leo Seafood og útgerð Þórunnar Sveinsdóttur?
„Já og nei! Auðvitað gerði ég alltaf ráð fyrir því að sá dagur rynni upp að breyting yrði á eignarhaldi þessa fyrirtækis sem ég starfa í, á hvern hátt sem það myndi gerast. Það lá hins vegar ekkert slíkt í loftinu. Fjölskyldan sem seldi er að fara út í stórverkefni í laxeldi og í því ljósi er atburðarásin skiljanleg.
Allra mestu máli skiptir að Þórunn Sveinsdóttir VE, aflaheimildir og annað það sem útgerð og fiskvinnslu tilheyrir, verður áfram í Eyjum. Það er sérstakt fagnaðarefni fyrir okkur starfsfólkið og allt byggðarlagið.“
Boltaáhugamaður á hliðarlínu
– Hvaða áhugamál á framkvæmdastjóri Leo Seafood önnur en að vinna fisk og selja?
„Ef þú ert að spyrja hvort ég spili golf þá er svarið nei.
Á hinn bóginn fylgist ég vel með fótbolta og handbolta og styð þar auðvitað okkar fólk í gegnum sætt og súrt. Sjálfur var ég í fótbolta og handbolta upp alla yngri flokkana og spilaði lengi í meistaraflokki ÍBV í fótbolta en hætti fyrir tólf árum. Nú læt ég duga að fylgjast vel með af hliðarlínunni. Mér finnst aðdáunarvert að við skulum eiga lið í efstu deild í handbolta og fótbolta, karla og kvenna, ekki fjölmennara samfélag en raun ber vitni.“
- Óskar Pétur Friðriksson tók myndirnar í Leo Seafood.