Jarðvegsvinna er hafin við Áshamar 77 þar sem rísa mun nýtt fjölbýlishús með bílakjallara. Framkvæmdirnar eru í samræmi við nýlega samþykkta skipulagsbreytingu sem markar næsta skref í þróun íbúðabyggðarinnar við Hamarsskóla.
Tillagan að breyttu deiliskipulagi fyrir Áshamar 75 og 77 var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði í maí síðastliðnum og síðar staðfest af bæjarstjórn Vestmannaeyja. Engar athugasemdir bárust við skipulagsbreytinguna.
Samkvæmt nýju skipulagi verða lóðirnar Áshamar 75 og 77 aðskildar og bærinn tekur til sín land á milli þeirra til að koma fyrir nýjum vegi að inngöngum fjölbýlishúsanna og að vesturhlið Hamarsskóla.
Í skipulagsbreytingunum jókst hámarksfjöldi íbúða í húsinu úr 18 í 27 og gert er ráð fyrir lyftuhúsi og útskotum í byggingunni til að brjóta upp ytra byrði hennar. Grunnflötur byggingarinnar ofanjarðar verður 810 fermetrar og grunnflötur kjallarans 940 fermetrar. Svalir verða heimilar allt að tvo metra út fyrir byggingarreit.
Breytingin fellur að aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015–2035 þar sem svæðið er skilgreint sem íbúðarsvæði. Þar sem bílastæði færast í kjallara og byggingin verður hönnuð með auknu sjónrænu uppbroti eru áhrif breytingarinnar talin jákvæð fyrir nærumhverfið.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst