Um fimmtíu sóttu fund Guðrúnar Hafsteinsdóttur formannsframbjóðanda í Sjálfstæðisflokknum sem haldinn var fimmtudagskvöld s.l. í Ásgarði, félagsheimili Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Guðrún tilkynnti framboð sitt til formanns fyrir tveimur vikum síðan og hefur síðan ferðast um landið og kynnt sína sýn á framtíð flokks síns.
Guðrún kom inn á þing í þar síðustu kosningum til Alþingis sem oddviti flokksins í Suðurkjördæmi. Hún gegndi stöðu dómsmálaráðherra frá árinu 2023 og þar til núverandi ríkisstjórn tók við keflinu í lok síðasta árs. Kosið verður til formanns Sjálfstæðisflokksins á Landsfundi sem fer fram næstu helgi í Laugardalshöll í Reykjavík.
Mikil stemning var á fundi Guðrúnar og er ljóst að spennan fer vaxandi fyrir komandi Landsfundi. Góðar og miklar umræður sköpuðust um málefni, stöðu Sjálfstæðisflokksins og framtíðarsýn.
Guðrún er þriðja konan sem gefur kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Sú fyrsta var Hanna Birna Kristjánsdóttir og önnur var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. Sú staða er því nú uppi í Sjálfstæðisflokknum, að svo gott sem öruggt má telja að næsti formaður flokksins, sá tíundi í röðunni, verði fyrsta konan til að gegna embættinu. Þá má geta þess að af þeim níu einstaklingum sem gegnt hafa embætti formanns Sjálfstæðisflokksins, hefur aðeins einn þeirra komið úr landsbyggðarkjördæmi.




















