Veiðar á Íslandssíld hafa gengið vel hjá Vinnslustöðinni í haust og vinnsla verið nokkuð samfelld þrátt fyrir breytilegt veðurfar síðustu daga. Þetta segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisks hjá Vinnslustöðinni, í samtali við Eyjafréttir.
Að hans sögn hófust síldveiðar í lok október og hafa bæði Gullberg og Huginn verið á miðunum síðustu daga. „Í Huginn eru komin um 900 tonn og hann kemur í land í nótt,“ segir Sverrir. Síldin sé af mjög góðum gæðum og henti vel til vinnslu. Samtals hafi verið landað tæpum 7.000 tonnum af Íslandssíld og rúmlega 3.000 tonn af því magni farið í frystingu.
Sverrir segir að netabáturinn Kap hafi verið á veiðum allt frá því í lok september, en farið í árlegt jólafrí nú um síðustu mánaðamót. „Þetta er svipuð venja og undanfarin ár. Kap fer svo strax af stað aftur í byrjun janúar,“ segir hann. Gangurinn í haust hafi verið mjög góður og aflinn blanda af þorski og ufsa, auk þess sem talsvert hefur verið af löngu.
Togskipin hafa einnig verið að gera góða túra, en þurft að sækja nokkuð langt. „Þau hafa oftar en ekki þurft að sækja bæði austur fyrir land og á Vestfjarðamið, auk þess að fara djúpt út af Reykjanesi,“ útskýrir Sverrir. Breki og Þórunn Sveinsdóttir hafa að mestu verið úti fyrir Vestfjörðum að undanförnu. Vegna veðurs og flutninga frá Eyjum hafi löndun af og til farið fram í Hafnarfirði.
„Breki fór út aftur á mánudaginn eftir að hafa landað í Hafnarfirði. Hann byrjaði suðvestur af Reykjanesi en er núna kominn austur fyrir land vegna slæmrar veðurspár,“ segir Sverrir. Þórunn Sveinsdóttir landaði þar í gær og hélt út aftur sama kvöld. „Hún er komin í leiguverkefni og verður að veiðum fyrir landvinnslu Samherja fram í miðjan janúar.“
Drangavík hefur einnig verið að veiðum við Eyjar, en sótt talsvert bæði austur og vestur fyrir Reykjanes. „Togskipin eru almennt með blandaðan afla – þorsk, ýsu, ufsa og karfa ásamt fleiri tegundum.“
Veðrið hefur, að sögn Sverris, verið einstaklega gott í haust allt fram að síðustu viku. „Síðan þá hefur þetta verið aðeins snúnara, en við höfum þó náð að halda góðri keyrslu,“ segir hann.
Í vinnslunni hefur einnig verið nóg að gera. „Við höfum verið í stöðugri saltfiskvinnslu í haust samhliða síldarfrystingu,“ segir Sverrir. Þá hafi unnið verið í ferskum afurðum og frystingu í Hafnarfirði. Að lokum segir hann að starfsemi í Leo Seafood sé nú lokið. „Það hefur ekki verið nein starfsemi þar frá því í lok síðustu viku,“ bætir hann við.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.