ÍBV sigraði Víking, 26-22 í Olís deild karla í kvöld þegar áttunda umferð deildarinnar fór fram.
Fyrir leikinn gerði ÍBV athugasemd við gólfið í Víkinni en þeir töldu það vera of sleipt sérstaklega í öðrum teignum, sú kenning Eyjamanna reyndist vera sönn því strax á annarri mínútu leiksins meiddist Stephen Nielsen markmaður ÍBV og stuttu síðar þurfti lykilmaður úr liði Víkings frá að hverfa vegna meiðsla. Stuttu síðar snéri svo Andri Heimir Friðriksson sig á ökkla og kom ekkert meira við sögu ásamt ofantöldum. ÍBV virtust vera mjög passasamir og ekki þora í allar aðgerðir sínar eftir að hafa séð á eftir þremur leikmönnum í meiðsl. Leikurinn var mjög jafn fyrsta korterið, ÍBV gaf svo aðeins í og náðu fjögurra marka forustu en það varði ekki lengi og Víkingar náðu að minnka muninn Í 11-12, þá tók Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV leikhlé. ÍBV nýtti leikhléið vel og skoruðu næstu tvö mörk og fór inn í hálfleik með þriggja marka forskot, 11-14.
Víkingar náðu að jafna fljótlega þegar síðari hálfleikur hófst og var jafnt á nánast öllum tölum þangað til stundarfjórðungur var eftir þá gáfu Eyjamenn í og tryggðu sér sigurinn með góðum kafla, lokatölur 26-22.
Mörk ÍBV skoruðu þeir; Einar Sverrisson 7, Kári Kristján Kristjánsson 4, Magnús Stefánsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 4, Andri Heimir Friðriksson 2, Nökkvi Dan Elliðason 2, Hákon Daði Styrmisson 1, Elliði Snær Viðarsson 1 og Brynjar Karl �?skarsson 1.
Fram undan eru tveir leikir í Evrópukeppni hjá ÍBV, eins og staðan er núna er óvíst með þátttöku Andra Heimis og Stephen í þeim leikjum. Leikirnir fara fram um næstu helgi í Vestmannaeyjum.