Föstudaginn 5. september verður uppbrotsdagur í Grunnskóla Vestmannaeyja þegar Ólympíuhlaup ÍSÍ og vinadagur að hausti fara fram. Hlaupið hefst kl. 11 og eru foreldrar og aðstandendur hvattir til að taka þátt og skokka með börnunum.
Á sama tíma hefst árlegt verkefni Göngum í skólann í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Embætti landlæknis, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samgöngustofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Heimili og skóla. Fulltrúar verkefnisins verða á staðnum og flytja ávörp.
Verkefnið, sem nú er haldið í nítjánda sinn, miðar að því að hvetja börn til virks ferðamáta, bæta umferðaröryggi og vekja athygli á mikilvægi reglulegrar hreyfingar og umhverfisverndar.
Krakkar á yngsta- og miðstigi skólans munu keppa um Gullskóinn sem þykir alltaf mjög eftirsóknarverður. Kennari skráir hversu margir ganga í skólann eða hluta leiðarinnar fyrstu tvær vikur átaksins og sá bekkur þar sem flestir ganga í skólann hlýtur Gullskóinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst