Klippa allt að 50 hausa á dag
„Þetta er eins og venjulega hjá okkur vertíðin fer hægt og rólega af stað og svo þéttist þetta þegar líður á mánuðinn,“ sagði Viktor Ragnarsson, rakari með meiru þegar við litum inn til hans. „Varðandi jólaklippinguna þá er fólk oft svolítið seint á ferðinni en við höfum verið að ýta við fólki. Annars eru menn vanir að koma hér og fá alltaf klippingu það er erfiðara um hádegi á Þorláksmessu.“
Það er nóg að gera hjá þeim félögum í desember. „Við erum að klippa allt undir 50 hausa á dag þegar mest er. Það er svipað og í aðdraganda þjóðhátíðar en munurinn er þó að núna fer mun meira af gjafavöru.“ Það kennir ýmissa grasa í vöruúrvalinu hjá Viktori. „Við erum með mikið af snyrtivörum fyrir bæði hár og skegg en fyrir tveimur árum fórum við að bjóða upp á ýmsan fatnað. Við erum með skyrtur, peysur, boli, slaufur og hatta frá hinum ýmsu merkjum. Þetta hefur bara svona stækkað í rólegheitunum hjá okkur. Aðstaðan er kannski ekki sú besta en þetta er í boði og hefur verið vel tekið.“ Þá eru þeir félagar einnig með úr og skart frá fínum merkjum á sanngjörnu verði að sögn Viktors sem var kominn í dúndrandi jólaskap.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst