Í síðustu viku fór fram svokölluð hæfileikamótun KSÍ undir stjórn Dean Edward Martin en hann hefur yfirumsjón með úrtaksæfingum bæði U-16 karla og kvenna. Helstu markmið hæfileikamótunarinnar er að fjölga þeim leikmönnum sem fylgst er með hverju sinni, fylgjast með yngri leikmönnum en áður hefur verið gert og undirbúa þá fyrir hefðbundnar landsliðsæfingar.
Einnig á þetta fyrirkomulag að verða til þess að komið verði til móts við minni staði á landsbyggðinni og mæta þeirra þörfum enn frekar. Mótunin á sömuleiðis að stuðla að því að leikmenn stærri félaga á höfuðborgarsvæðinu, sem að öllu jöfnu væru ekki valdir á landsliðsæfingar, fái séns á að láta ljós sitt skína. Einnig er talað um að þetta verði til þess að bæta samskipti KSÍ við aðildarfélögin og kynna fyrir þeim stefnu sambandsins í landsliðsmálum og undirbúa leikmenn enn betur til þess að mæta á landsliðsæfingar seinna með fræðslu.