Byggt á loðnumælinum rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Tarajoq í síðasta mánuði og gildandi aflareglu er ráðlagður hámarksafli 43 766 tonn fyrir fiskveiðiárið 2025/26. Þessi ráðgjöf er í samræmi við upphafsráðgjöf sem byggði á mælingum á ungloðnu haustið 2024. Ráðgjöfin verður endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í byrjun árs 2026, segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun.
Þar segir jafnframt að mælingar skipanna hafi farið fram á tímabilinu 23. ágúst til 22. september 2025 (Mynd 1, sjá neðar). Leiðangurinn er talinn hafa náð yfir útbreiðslusvæði stofnsins. Loðnan var nokkuð jafndreifð á svæðinu og mælingin hennar hafði fremur lágan breytistuðul.
Heildarmagn loðnu mældist 1209 þúsund tonn og þar af var stærð kynþroskahluta stofnsins 418 þúsund tonn. Þessar niðurstöður bergmálsmælinga og að teknu tilliti til niðurstaðna afránslíkans þýða að með afla upp á 65 650 tonn næst markmið gildandi aflareglu um að skilja eftir að lágmarki 114 þúsund tonn til hrygningar með 95 % líkum. Í varúðarskyni miðast milliráðgjöf sem nú er gefin út við 2/3 af þeim afla, eða 43 766 tonn.
Magn ókynþroska í fjölda var um 119 milljarðar sem er fimmta hæsta mæling á ungloðnu síðan mælingar hófust og bendir til þess að 2024 árgangurinn sé stór. Árgangurinn er af svipuðu stærðargráðu og 2019 árgangurinn sem gaf mikinn aflavertíðarnar 2021/22 og 2022/23. Þessar niðurstöður munu liggja til grundvallar á ráðgjöf um upphafsaflamark fyrir næsta fiskveiðiár (2026/2027) sem Alþjóðahafrannsóknaráðið mun gefa út í júní á næsta ári.
Mynd 1. Leiðangurslínur r/s Tarajoq (bláar) og r/s Árna Friðrikssonar (grænar) í ágúst – september 2025
ásamt dreifingu loðnu samkvæmt bergmálsgildum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst