Handboltamaðurinn Hákon Daði Styrmisson er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt ÍBV og mun leika með félaginu þegar Olís deildin fer aftur af stað í byrjun febrúar. ÍBV tilkynnti um félagsskiptin á samfélgasmiðlum sínum í dag. Hákon kemur til liðsins frá þýska liðinu Eintracht Hagen og gildir samningur hans við ÍBV út yfirstandandi tímabil.
Hákon Daði er 28 ára og leikur sem vinstri hornamaður. Hann hefur leikið í Þýskalandi frá árinu 2021, fyrst með Gummersbach og síðar með Eintracht Hagen.
Í tilkynningu ÍBV segir ,,Hákon þarf vart að kynna en hann kemur til liðsins frá þýska liðinu Eintracht Hagen og mun án efa styrkja hópinn út yfirstandandi tímabil. Við bjóðum Hákon Daða hjartanlega velkominn aftur til ÍBV og hlökkum til að sjá hann láta til sín taka á parketinu”.
Eyjamenn sitja í sjötta sæti Olís deildarinnar með 17 stig eftir 15 umferðir. Deildin fer aftur af stað 4. febrúar og þá taka Eyjamenn á móti Selfoss kl. 18:00.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst