Hanna Kallmaier mun leika með ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna á næstu leiktíð en hún hefur skrifað undir eins árs framlengingu á samningi sínum við félagið. Þetta kemur fram í frétt á vef ÍBV. Hönnu þekkja flestir í Vestmannaeyjum en hún hefur verið lykilleikmaður í liði ÍBV síðustu tvö leiktímabil.
Hanna sem er 27 ára hefur ekki misst af einum einasta leik á þessum tveimur tímabilum og var fyrirliði liðsins á nýafstaðinni leiktíð. Hún lék átján leiki í Pepsi Max deildinni í sumar og skoraði tvö mörk, gegn Þór/KA og Breiðabliki.
Hanna var valin leikmaður tímabilsins í fyrra en hún er mikil fyrirmynd fyrir yngri leikmenn félagsins þar sem dugnaður og vinnusemi hennar inni á vellinum skína í gegn í hverjum leik.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst