Hátíðarfundur bæjarstjórnar var haldinn í gær 14. febrúar í bíósal Kviku. Fundurinn var sá 1543. í röðinni en í gær voru liðin slétt 100 ár frá fyrsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Fundinn sátu Elís Jónsson forseti bæjarstjórnar, Njáll Ragnarsson aðalmaður, Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður, Trausti Hjaltason aðalmaður, Helga Kristín Kolbeins aðalmaður, Íris Róbertsdóttir aðalmaður og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður.
Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar setti fund og fór yfir sögu samfélags og atvinnulífs Vestmannaeyja síðustu hundrað árin.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri fór yfir sögu bæjarstjórnarkosninga og bæjarstjórna Vestmannaeyja.
Hildur Sólveg Sigurðardóttir bæjarfulltrúi fór yfir sögu og hlutverk Ráðhúss Vestmannaeyja frá byggingu þess til dagsins í dag. Hildur bar upp eftifarandi hátíðarsamþykkt bæjarstjórnar:
Hátíðarsamþykkt
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir í tilefni af 100 ára afmæli Vestmannaeyjakaupstaðar að halda áfram endurbótum á Ráðhúsi Vestmannaeyja við Stakkagerðistún með það að markmiði að húsið hljóti þann virðingarsess sem því sæmir og að innan veggja þess rúmist m.a. viðhafnarsalur og hluti safna Vestmannaeyjabæjar. Undirbúningur, áætlanagerð og nánari tillögur um framtíðarhlutverk hússins verði kynnt bæjarbúum haustið 2019. Áætlað er að endurbótunum ljúki á 3 árum.
Húsið var byggt sem Sjúkrahús Vestmannaeyja og var tekið í notkun 1928. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni þáverandi húsameistara ríkisins og var bygging þess mikið átak á sínum tíma. Húsið var gert að Ráðhúsi Vestmannaeyjabæjar 1977 að loknum miklum endurbótum, en þá hafði engin starfsemi verið í húsinu frá upphafi Heimaeyjargossins 23. janúar 1973 og starfsemi Sjúkrahússins flutti í nýtt húsnæði haustið 1974.Húsið gegndi hlutverki ráðhúss til haustsins 2016.
Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Hátíðarbókun
Til máls tók Jóna Sigríður Guðmundsdóttir sem fór yfir sögu og hlutverk Kvenngélags Líknar og las upp eftirfarandi bókun bæjarstjórnar:
Kvenfélagið Líkn var stofnað þann 14. febrúar 1909, af þáverandi héraðslækni og 23 konum úr Vestmannaeyjum. Félagið fagnar því 110 ára afmæli sínu í dag. Líkn hefur starfað óslitið frá þeim tíma sem það var stofnað og í dag telur félagið 119 konur sem allar sinna líknarstörfum fyrir félagið í sjálfboðavinnu. Það er Vestmannaeyjabæ gríðarlega mikilvægt að starfsrækt sé félag sem sinnir störfum í þágu samfélagsins með þeim hætti sem Kvenfélagið Líkn hefur gert undanfarna öld og áratug betur.
Bæjarstjórn þakkar Kvenfélaginu Líkn og öðrum þeim sjálfboðaliðum sem komið hafa að starfi félagsins síðstu 110 árin, fyrir ómetanlegt framlag til samfélagsins og óskar félaginu til hamingju með þennan merka áfanga.
Okkar maður Óskar Pétur var að sjálfsögðu á staðnum og myndaði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst