„Svarið við þessari spurningu er, að dómsmálaráðherra er ekki að leggja niður sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum. Eins og kynnt var í síðustu viku sagði núverandi sýslumaður upp störfum og óskaði eftir því að fá lausn strax. Það er unnið að breytingum í málefnum sýslumanna á landinu öllu og þess vegna er sýslumaðurinn á Suðurlandi sett yfir okkar sýslumannsembætti tímabundið í eitt ár,“ sagði Eyþór Harðarson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í bæjarráði um þá ákvörðun ráðherra að auglýsa ekki stöðu sýslumanns í Vestmannaeyjum eftir að Arndís Soffía Sigurðardóttir sagði upp.
Þess í stað setti Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra Kristínu Þórðardóttur, sýslumann á Suðurlandi, tímabundið sem sýslumann í Vestmannaeyjum til eins árs.
„Í fyrsta lagi harma ég að Arndís hafi sagt upp störfum með svo stuttum fyrirvara,“ sagði Eyþór. „Arndís vann frábært starf hér í Eyjum við eflingu embættisins. Það er engin launung á því að ég hefði kosið að staða sýslumanns hefði verið auglýst laus til umsóknar á þessum tímamótum til að fylgja eftir þeirri góðu vinnu sem fyrrverandi sýslumaður hefur verið að byggja upp.“
Eyþór sagði það sína staðföstu trú að stofnanir eða embætti á vegum ríkisins dafni ekki ef ekki er öflugur yfirmaður á staðnum með metnað fyrir samfélaginu og stofnuninni um leið. „Við sem skattborgarar viljum öll bættan ríkisrekstur en það má ekki eingöngu verða sýnilegt út á landsbyggðinni á meðan ráðuneytin þenjast út í höfuðborginni.
Við bæjarfulltrúar eigum fund með Guðrúnu og þingmönnum kjördæmisins á fimmtudaginn og verða þá málin rædd til mergjar. Ég treysti því og trúi að Guðrún sé ekki á þeirri vegferð að veikja sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum,“ sagði Eyþór að endingu.
Mynd: Arndís Soffía, fráfarandi sýslumaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst