Herjólfur hættir að hlaða í heimahöfn
Gríðarleg hækkun á raforkuflutningi ástæðan
Hledsla Herj 2020 La
Herjólfur er hættur að hlaða í Eyjum. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Rafmagnsferjan Herjólfur hefur hætt að hlaða í Vestmannaeyjum eftir að gjaldskrá fyrir flutning raforku til Eyja hækkaði verulega, samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila ferjunnar. Ný gjaldskrá tók gildi á nýársdag, og hefur ekki verið hlaðið síðan á gamlársdag. Í kjölfarið siglir Herjólfur nú á olíu frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar.

„Þessi hækkun er einfaldlega óverjandi og knýr okkur að þeirri erfiðu ákvörðun að hætta að hlaða skipið í Vestmannaeyjum,“ segir Ólafur Jóhann Borgþórsson, framkvæmdastjóri Herjólfs í samtali við Eyjafréttir.

Ríkið fjárfestir – ríkið kollvarpar

Herjólfur var hannaður og byggður sem rafmagnsferja eftir umfangsmikla fjárfestingu ríkisins í rafmagnsbúnaði, bæði um borð og í landi, með það að markmiði að draga úr olíunotkun og minnka kolefnisspor ferjusiglinga. Að mati framkvæmdastjórans hafi ákvarðanir stjórnvalda nú haft þær afleiðingar að erfitt sé að fylgja þeim markmiðum eftir.

„Það er með ólíkindum að ríkið skuli fyrst fjárfesta í rafvæðingu ferjunnar og síðan taka ákvarðanir um svo gríðarlegar hækkanir að okkar mati leiði til þess að við þurfum að knýja skipið á olíu. Þetta gengur gegn allri skynsemi, bæði rekstrarlega og umhverfislega,“ segir Ólafur.

Siglt á olíu þvert á umhverfismarkmið

Vegna hækkunarinnar hefur Herjólfur nú hætt allri hleðslu í Vestmannaeyjum og siglir á olíu á leiðinni til Landeyjahafnar en heldur áfram að hlaða í Landeyjahöfn þar sem rafmagnsverðið er mun hagstæðara.

Samkvæmt framkvæmdastjóranum er staðan alvarleg og hann telur að hún sendi röng skilaboð um forgangsröðun í loftslags- og samgöngumálum. „Ef vilji væri til að styðja við umhverfisvænar samgöngur væri þetta einfaldlega ekki gert. Þetta er að okkar mati niðurstaða pólitískra og stjórnsýslulegra ákvarðana, ekki val okkar,“ segir hann.

Skorið niður og gjöld hækkuð

Ólafur bendir einnig á að hækkun gjaldskrár Landsnets komi ofan á boðaðan niðurskurð á fjárframlagi til ferjusamgangna. Að hans sögn setji samspil þessara aðgerða rekstur Herjólfs í þrönga stöðu.

„Annars vegar er verið að skera niður framlög til ferjusamgangna og hins vegar að hækka gjöld ríkisfyrirtækja gríðarlega. Þetta er tvöfaldur skellur og að okkar mati bitnar beint á samfélaginu hér í Vestmannaeyjum og þeim sem vilja sækja Eyjarnar heim.“

Þrýstingur á hækkun fargjalda

Herjólfur hefur lagt ríka áherslu á að halda fargjöldum eins hagstæðum og mögulegt er, enda skipti það sköpum fyrir íbúa Vestmannaeyja og atvinnulíf í Eyjum. Framkvæmdastjórinn segir þó að nú blasi við að erfitt geti reynst að standa gegn hækkunum til lengdar. „Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að halda fargjöldum lágum. En að okkar mati er með þessum aðgerðum verið að þrýsta okkur í þá stöðu að við höfum einfaldlega ekki annað val,“ segir Ólafur.

Kallar eftir endurskoðun

Að lokum kallar framkvæmdastjóri Herjólfs eftir því að ákvörðun Landsnets verði endurskoðuð án tafar. „Að mínu mati er fjarri allri skynsemi að hækka gjaldskrá þannig að verðið verði nærri fjórfalt hærra en það var áður. Það getur varla verið hagur Landsnets eða samfélagsins að Herjólfur sigli frekar á olíu frá Vestmannaeyjum en á raforku. Núverandi staða að okkar mati gengur hvorki upp rekstrarlega né umhverfislega og þjónar engum,“ segir Ólafur Jóhann Borgþórsson.

Nýjustu fréttir

Tvíþætt staða orkuskipta
Netöryggisfræðsla fyrir foreldra grunn- og framhaldsskólanemenda
Áskriftarkort sundlaugagesta framlengd
Eyjarnar landa fyrir austan
Sýningin Geological Rhapsody opnar á morgun
Nýtt fyrirkomulag í Uppbyggingarsjóði Suðurlands
Íþróttahátíð ÍBV í kvöld
Bærinn niðurgreiðir heimsendan mat um 53%
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.