Nú hillir undir fyrstu íbúakosninguna í tíð núverandi meirihluta í Eyjum. Meirihluti E- og H-lista tók við völdum árið 2018 og var mikið rætt um aukið íbúalýðræði í aðdraganda kosninga það árið.
Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í liðinni viku var rykið dustað af máli sem var til umræðu í maí árið 2024. Þá var samþykkt á fundi bæjarstjórnar að kanna hug íbúa hvort hefja skuli vinnu við að byggja upp þróunarsvæði M2 sem fór undir hraun í gosinu eða ekki. Í því skyni á að fara fram íbúakosning sem framkvæmd er samkvæmt reglugerð og samþykkt Vestmannaeyjabæjar áður en lagt er af stað í skipulagsvinnu.
Áætlað var að íbúakosningin færi fram samhliða alþingiskosningum sem urðu síðan fyrr en áætlað var og því ekki nægur tími til að undirbúa íbúakosningu þeim samhliða. Næstu kosningar eru sveitarstjórnarkosningar vorið 2026 og mun þá umrædd íbúakosning fara fram samhliða þeim.
Í afgreiðslu bæjarráðs var framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að undirbúa íbúakosningu samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 og leggja drög að fyrirkomulagi fyrir bæjarráð til samþykktar.
Í bókun Eyþórs Harðarsonar, fulltrúa D lista vísar hann í fyrri bókanir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið. „Mikilvægt er að leggja áherslu á uppbyggingu íbúðasvæða sem nú þegar eru í skipulagshönnun eins og t.d. við malarvöllinn í Löngulág. Eflaust eru þarfari verkefni eins og viðhald fasteigna sveitarfélagsins mikilvægari á þessum tímapunkti en að kosta til miklum fjármunum í mokstur inní nýja hraunið. Undirritaður setur sig þó ekki á móti íbúakosningunni líkt og komið hefur áður fram enda stuðningsmaður íbúalýðræðis. Mikilvægt er þó að bæði fyrirkomulag og þær spurningar sem lagðar verða fyrir íbúa, verði samþykktar og ræddar af bæjarráði áður en kosningin fer fram eins og fram kemur í niðurstöðu.”
Í bókun Njáls Ragnarssonar og Jónu Sigríðar Guðmundsdóttur, fulltrúa E og H lista taka þau undir fyrri bókanir meirihluta E og H lista í bæjarstjórn og ítreka mikilvægi þess að íbúar geti sagt sitt um hvar framtíðaruppbygging á að fara fram sérstaklega á svæði eins og á nýja hrauninu þar sem geta verið mjög skiptar skoðanir. „Hér er um að ræða tillögu um íbúakosningu til að kanna hug íbúa ekki til þess að ákveða að fara í framkvæmdir.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst