Greint var frá því í vikunni að FH-ingar séu vel á veg komnir með framkvæmd við lagningu á svokölluðu hybrid grasi á æfingavöll sinn í Kaplakrika. FH-ingar vonast til að geta lagt eins gras á aðal keppnisvöll sinn á næstu þremur til fjórum árum.
Haft var eftir Jóni Rúnari Halldórssyni, fyrrverandi formanni knattspyrnudeildar FH sem hefur leitt verkefnið hjá FH á vef RÚV að þetta sé 95% náttúrulegt gras styrkt af þessum þráðum, 5 prósent.
„Að spila á þessu er eins og á náttúrulegu grasi. Alþjóð veit að við höfum aldrei verið hrifnir af gervigrasi sem uppistöðunni,“ sagði Jón og bætti við:
„Hérna erum við með hita undir sem við stýrum. Við teljum að við getum notað þetta einhverjum fjórum mánuðum lengur. Við getum að minnsta kosti tvöfaldað álagið á fermetrann.“
Einnig benti hann á að þessi kostur sé mun umhverfisvænni en gervigrasið. „Það á að banna ífylliefni, plastið þar, hér er ekkert svoleiðis. Þannig að þetta er mjög umhverfisvænt. – En viðhaldið, er það meira en á gervigrasvöllum? – Ef þú tekur lengra tímabil, til dæmis tíu ár, þá er þetta mun hagkvæmara.“
Jón segir startkostnaðinn við að leggja svæði sem nýtist sem tveir æfingavellir vera 340 milljónir, sem sé ekki meira en á hefðbundnum gervigrasvelli. Jón segir að ef allt gangi að óskum verði eins gras lagt á aðal keppnisvöll FH eftir þrjú til fjögur ár.
Þá er spurningin hvort þetta sé ekki sú leið sem hentar best á Hásteinsvöll, en þráttað hefur verið um það undanfarin ár hvort leggja skuli gervigras á völlinn eða taka hann upp og skipta um undirlag og setja aftur gras á hann. Þessi leið gæti hugsanlega sameinað þá sem hafa staðið á sitthvorum pólnum í þessu máli. Eitt er víst – að völlurinn þarf að fara að fá endurbætur, enda komið á fjórða áratug síðan hann var tekin upp síðast.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst