ÍBV er komið áfram í aðra umferð, 32-liða úrslit, Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik þrátt fyrir tap í síðari leiknum við Colegio de Gaia í Portúgal á laugardag, 27:26. ÍBV vann fyrri viðureignina með fjögurra marka mun, 27:23, eftir að hafa skorað sex síðustu mörkin. Liðið mátti því alveg við því að það gæfi aðeins á bátinn í síðari viðureigninni. Samanlagður sigur, 53:50. Nafn ÍBV verður þar með í pottinum á þriðjudaginn þegar dregið verður í næstu umferð keppninnar.
Liðið varð þó fyrir áfalli á laugardaginn í síðari leiknum en átta mínútum fyrir leikslok sleit Britney Cots hásin á vinstri fæti. Reikna má með hálfs árs fjarveru hennar frá handknattleiksvellinum. Britney gekk til liðs við ÍBV í sumar. Hún er að hefja sitt fimmta keppnistímabil hér á landi en áður hefur Britney, sem er landsliðskona Senegal, leikið með FH og Stjörnunni. Meiðslin koma ennfremur í veg fyrir að hún eigi möguleika á að blanda sér í keppnishóp Senegal á HM kvenna undir lok ársins. Britney lék með landsliðið Senegal í Afríkukeppninni þegar liðið tryggði sér HM-farseðilinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst