Karlalið ÍBV í fótbolta tók á móti Aftureldingu á Hásteinsvelli í 23. umferð Bestu deildar karla í dag. Þetta var fyrsti leikur eftir skiptingu deildarinnar. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Eyjamenn voru með yfirhöndina allan leikinn og fengu góð færi í fyrri hálfleik til að komast yfir. Markvörður Aftureldingar átti góðan leik og sá til þess að staðan væri 0-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri. Það voru Eyjamenn sem sóttu meira og komust oft á tíðum í mjög góðar stöður. Þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður fengu Eyjamenn aukaspyrnu töluvert fyrir utan teig Aftureldingar. Fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum í hornið. 1-0 fyrir ÍBV. Eyjamenn hefðu getað bætt við og lokað leiknum en inn vildi boltinn ekki. Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka fékk Afturelding aukaspyrnu á stórhættulegum stað. Aron Jóhannsson tók spyrnuna og setti boltann í netið fram hjá Marcel í marki ÍBV. Lokatölur leiksins 1-1.
Eftir leikinn eru Eyjamenn komnir með 30 stig, tveimur stigum á eftir KA sem sigraði KR fyrir norðan 4-2. Afturelding eru áfram neðstir með 22 stig, þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni. ÍA vann þá öruggan 4-0 sigur á Vestra í gær.
Eyjamenn fara næst vestur og spila gegn Vestra laugardaginn 27. september kl. 14:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst