Íris bæjarstjóri: Bjart framundan!
10. júlí, 2024
Íris, bæjarstjóri.

Staða mála í Vestmannaeyjum er góð og framtíðarhorfurnar bjartar. Þetta er afrakstur dugnaðar þeirra sem hér búa, starfa og stýra. Horft er til framtíðar og sveitarfélagið þarf að fylgja eftir þeirri miklu uppbyggingu sem er hér í Eyjum bæði á vegum einstaklinga og fyrirtækja.

Mikilvæg hagsmunagæsla gagnvart ríkinu

Þýðingarmikið er að ríkið standi við sínar skuldbindingar gagnvart sveitarfélaginu og það er, og verður alltaf, stór hluti af hinu pólitíska starfi að verja hagsmuni Vestmannaeyinga og sækja á ríkið um réttláta ráðstöfun skattfjár til þeirra verkefna sem ríkið ber ábyrgð á gagnvart okkur Eyjamönnum.  Mikilvæga innviði og samgöngur eigum við undir ríkinu. Nokkuð hefur áunnist undanfarin ár varðandi styrkingu þessara innviða en betur má ef duga skal. Lagning Vestmannaeyjastrengja 4 og 5, sem ætlunin er leggja næsta sumar, mun breyta öllu varðandi öryggi og getu við flutning raforku til Eyja. Unnið er að málum vatnsveitunnar og að undirbúningi að lagningu nýrrar vatnsleiðslu og munu þau mál skýrast fljótlega. Samgöngurnar okkar þarf sömuleiðis að bæta.  Bæjarstjórn er algerlega samstíga í öllum þessu stóru hagsmunamálum sem skiptir miklu  fyrir framgang þeirra.

Sterk staða Vestmannaeyjabæjar

Rekstur Vestmanneyjabæjar endurspeglar vel fjárhagslegan styrk sveitarfélagsins sem er vel í stakk búið til að standa undir nauðsynlegri framtíðaruppbyggingu. Fjárfestingar bæjarins hafa aukist undanfarin ár og þær hafa allar verið fjármagnaðar af eigin fé og ekkert tekið að láni. Mikil uppbygging er framundan hjá sveitarfélaginu á mörgum sviðum og er mikilvægt að vanda vel til verka í þeim efnum.

Gríðarlega mikil uppbygging og jákvæðni á sér stað í Eyjum og við horfum áfram björtum augum til framtíðar. Einkaaðilar hafa trú á samfélaginu og vilja byggja hér upp, sem skapar ný tækifæri fyrir íbúa og bæjarfélagið til sóknar. Áframhaldandi uppbygging og samvinna á þeim nótum sem verið hefur á undanförnum árum er lykillinn að því að við getum komist í gegnum þær áskoranir og getum nýtt þau tækifæri sem eru til staðar í Vestmannaeyjum.  Fólkið sem hér býr er kraftmikið og hefur sýnt það undanfarin ár að við getum tekist á við áskoranir með samtakamætti og samstöðu. Við sýnum það í gleði og sorg og í því felst hinn sanni Eyjakraftur og Eyjahjarta. Við viljum vera í fremstu röð og vera leiðandi á sem flestum sviðum.

Tækfæri til náms

Við höfum stigið ný skref í menntamálum sem eftir er tekið og skólasamfélagið, og raunar allt samfélagið, er þátttakandi í verkefnum sem hafa það að markmiði að tryggja öllum börnum tækfæri til að nýta sína styrkleika. ‘’Kveikjum neistann’’ er stór partur af þessari vegferð. Nú er komin þriggja ára reynsla á verkefnið og það hafa verið margar áskoranir fyrir þá sem hafa unnið að þessu. Yfirmarkmiðið ‘’Kveikjum neistann’’ var að bæta líðan, bæta árangur og efla áhugahvöt. Eftir þessi þrjú ár er óhætt að segja að það hafi tekist fyrir tilstilli og með mikilli vinnu margra aðila. Árangurinn í lestri er frábær og framar mínum björtustu vonum. Margt annað gott er í gangi í leik- og grunnskólum og er litið til Vestmanneyja sem öflugs skólabæjar. Þetta er mikill heiður fyrir okkur öll sem komum að þessum málum. Nú þarf að halda áfram því að skólarnir eru hjartað í hverju samfélagi.

Það fjölgar í Eyjunum enn

Mikil samkennd er í samfélaginu og við erum stolt af bænum okkar. Ofan á allt sem áður er nefnt má bæta þeim verðmætu lífsgæðum sem felast í því að við sem hér búum græðum heilan klukkutíma á dag vegna skemmri vegalengda og engra tafa í umferð sé miðað við höfuðborgarsvæðið. Þann klukkutíma má nota í ýmislegt þarfara og skemmtilegra en að sitja fastur í bíl! Margir eru að kveikja á kostum þess að búa í Eyjum og er stöðug fjölgun. Þegar þetta er skrifað eru íbúar í 4697 og hafa ekki verið fleiri síðan árið 1996.

Tökum sameiginlega þátt í að halda áfram uppbyggingu á öflugu og góðu samfélagi – okkur öllum sem búum í Eyjum til hagsbóta!

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í 50 ára afmælisblaði Eyjafrétta:

 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst