Bæjarráð Vestmannaeyja tók fyrir á fundi sínum í gær, afstöðu stýrihóps um undirbúning Landeyjahafnar vegna tafa á gjaldskrá og ferðatíðni siglinga í hina nýju höfn. Bæjarráð tekur undir með stýrihópnum og hvetur samgönguyfirvöld til að gefa út tafarlaust gjaldskrá og ferðatíðni og að staðið verði við þær forsendur sem kynntar hafi verið hingað til. Samkvæmt þeim á að sigla allt að sjö ferðir á sumrin, fimm á vorin og haustin og fjórar yfir svartasta skammdegið. Þá ætti gjald fyrir fullorðna að vera 500 krónur og 1000 krónur fyrir bíl miðað við þær hugmyndir sem unnið er út frá.