Fjölmennt og sterkt atskákmót til minningar um Bergvin Oddsson – Bedda á Glófaxa fór fram í húsnæði Þekkingarsetursins á laugardaginn. Keppendur voru alls 42 talsins , þar af fimm stórmeistrar og nokkrir alþjóðlegir skákmeistarar. Atskákmótið var haldið af Taflfélagi Vestmannaeyja í samstarfi við fjölskyldu Bergvins, en Beddi tefldi mikið á yngri árum og var í hópi öflugustu bakhjarla TV.
Keppendur á mótinu allt frá 10 ára upp í 77 ára, þar af þrjár konur. Umhugsunartími 15 mín. á skákina og 5 sek. á hvern leik. Alls voru tefldar átta umferðir, en hver umferð tók um 45 mínútur. Arnar Sigurmundsson form. TV og Lúðvík Bergvinsson settu mótið. María – Dúlla – Friðriksdóttir ekkja Bedda lék fyrsta leikinn í skák Lúðvíks við Jóhann Hjartarson stórmeistara.
Beddamótið er meðal sterkustu atskákmóta sem fram hafa farið hérlendis. Úrslit réðust í síðustu umferðinni , Jóhann Hjartarson og Hannes Hlífar Stefánsson urðu jafnir í 1.-2. sæti með 6,5 vinninga í átta skákum. Jóhann úrskurðaður sigurvegari . Í 3-5 sæti urðu Helgi Ólafsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Þröstur Þórhallsson allir með 6 vinninga. Helgi var úrskurðaður í 3. sæti. Þeir sem skipuðu fimm efstu sætin eru allt stórmeistarar. Þeir Jóhann, Hannes Hlífar og Helgi skipuðu einnig efstu þrjú sætin á Skákþingi Íslands sem fram fór í Eyjum 1994 og ótrúlegt að sama niðurstaða skyldi nú verða í jafnsterku móti 25 árum síðar! Af 42 keppendum voru átta búsettir í Eyjum, en einnig nokkrir Eyjamenn búsettir uppi á landi sem hafa teflt með TV í Íslandsmótum skákfélaga. Skákstjóri var Kristján Örn Elíasson, en hann var yfirskákdómari á Reykjavíkurmótinu sem fór fram í apríl sl. Arnar Sigurmundsson var honum til aðstoðar við framkvæmd mótsins.Fjölmargir aðilar komu að undirbúningi mótsins. Fjölskylda Bergvins gaf öll verðlaun sem voru mjög vegleg , auk þess styrktu fyrirtæki innannbæjar og utan mótshaldið og framhaldið. Arnar Sigurmundsson formaður TV segir að mótið hafi verið öllum til sóma- og ánægjulegt að minnast þessa mæta manns og félaga Bedda á Glófaxa með jafn afgerandi hætti.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst